Myndskeið: Telur nýjum lágpunkti náð hjá Rúv

Lét hann fylgja með brot úr þættinum: Vikan með Gísla …
Lét hann fylgja með brot úr þættinum: Vikan með Gísla Marteini. Skjáskot úr myndskeiði.

Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi og starfsmaður þingflokksins, segir nýjum lágpunkti náð „þegar útlendingastefna Rúv er orðin að meginþema í jólabarnaefni sem er framleitt“.

Birti hann færslu á facebooksíðu sinni þar sem hann gagnrýndi vinnubrögð Ríkisútvarpsins.

„Fyrir viku sagðist þáttagerðarkona á vegum Rúv, í þætti á vegum Rúv þar sem hún var gestur og fjallað var um annan væntanlegan þátt á Rúv, hafa strengt það áramótaheit að leika vonda konu á árinu. Það hafi hún fengið uppfyllt þegar hún fékk að leika forstjóra Útlendingastofnunar í jóladagatali barnanna á Rúv. Gísli Marteinn, sem fannst þetta greinilega algjör snilld, lýsti þessu þannig að þarna væri verið að blanda saman list og pólitík.“

Andri Steinn Hilmarsson.
Andri Steinn Hilmarsson.

Pólitísk slagsíða Rúv „ekki beint launungarmál“

Andri segir það ekki beint launungarmál að Rúv hafi pólitíska slagsíðu, bæði í dagskrárgerð og hjá fréttastofu. „Fréttastofan velur oft fyrirsagnir og fréttavinkla sem litast af ákveðinni sýn á málin. Hleypir oft kappi í kinn hjá spyrlum þegar ákveðnir stjórnmálamenn mæta en rauður dregill dreginn fram þegar aðrir eru í settinu.“

Hann telur Rúv síðastliðin misseri endanlega hafa kastað því fyrir róða að gæta hlutleysis í stórum málum. 

Lét hann myndbandsbrot fylgja með færslunni til að lýsa „stemningunni hjá þessari ágætu stofnun sem við þurfum öll að greiða fyrir, hvort sem við höfum áhuga á því eða ekki“.

mbl.is