Væntir fundarboðs á allra næstu dögum

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ og formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ og formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er í raun og veru til þess að styrkja okkar stöðu við samningaborðið, þetta eru hópar sem eru mjög áþekkir í þessum áherslum varðandi endurnýjun kjarasamninga og til þess að reyna að einfalda stöðuna okkar megin er ákveðið að gera þetta.“

Þetta segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands og forseti ASÍ, í samtali við mbl.is.

VR, LÍV og samflot iðn- og tæknigreina hafa ákveðið að taka höndum saman í yfirstandandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Innan samflots iðn- og tæknigreina eru MATVÍS, Rafiðnaðarsamband Íslands, Samiðn og VM.

Lítið gengið í dag

Kristján segir markmiðið vera að ná að endurnýja kjarasamninga sem allra fyrst og að mikil samstaða hafi verið meðal stéttarfélaganna að fara þessa leið.

„Eins og staðan er núna þá hefur það gengið afskaplega hægt að ná samningum sem henta hópunum okkar. Það hefur lítið gengið í dag, en ég vænti þess að við verðum boðuð til fundar á allra næstu dögum.“

Boltinn hjá ríkissáttasemjara

Kristján segist bjartsýnn á að samningar náist fljótlega.

„Það er auðvitað bara okkar markmið að ná að ljúka þessu verkefni sem allra fyrst, en það þarf hins vegar að komast meiri kraftur í viðræður til þess að ná saman gagnvart samfloti iðn- og tæknifólks og verslunarfólki líka.“

Kristján segir það nú vera í höndum ríkissáttasemjara að boða til næsta fundar, sem verði vonandi sem fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert