Boðar ekki til fundar á morgun

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjara ætlar ekki að boða VR, LÍV og sam­flot iðn- og tækni­greina til fundar við Samtök atvinnulífsins á morgun. Hann segir í samtali við mbl.is að ákveðin vinna þurfi að eiga sér stað áður en hann boði til fundar.

„Ég átti ítarleg samtöl við alla formenn félaganna og alla samningsaðila í dag. Eftir að hafa talað ítarlega við þá þá mat ég það þannig að það væri skynsamlegra að nýta morgundaginn í annað.“

Aðalsteinn væntir þess að samninganefndirnar munu funda á morgun innanborðs.

„Það er ákveðin vinna sem þarf að eiga sér stað áður en við hittumst,“ segir hann og bætir við að sú vinna hafi hafist um helgina. 

„Ég met það aftur á morgun hvenær verður ástæða til að setjast saman öll á fund.“

mbl.is