Hélt kynhneigðinni lengi leyndri

Sir Stephen Hough er væntanlegur til Íslands.
Sir Stephen Hough er væntanlegur til Íslands. ​Ljósmynd/Sim Canetty-Clarke

Breski konsertpíanistinn og rithöfundurinn Sir Stephen Hough gerði sér snemma grein fyrir því að hann væri samkynhneigður. „Ætli ég hafi ekki verið fimm ára,“ segir hann, „en hélt því lengi leyndu. Foreldrar mínir voru engir púritanar en þetta hefði eigi að síður ekki verið ásættanlegt,“ segir hann.

„Mjög fáar breskar fjölskyldur á sjöunda áratugnum og fram á þann áttunda treystu sér til að deila slíkum upplýsingum með öðrum,“ heldur hann áfram. „Eins og svo margir samkynhneigðir menn af minni kynslóð kom ég út í áföngum gagnvart ólíkum hópum. Meðan ég var við nám í Juilliard í New York vissu allir að ég væri samkynhneigður en mjög fáir heima í Englandi. Ég kom ekki að fullu út úr skápnum fyrr en við maki minn tókum saman og hófum búskap 2002 [þá var Sir Stephen um fertugt]. Þá gat ég ekki lengur vikið mér undan því að greina móður minni frá þessu. Og þegar hún vissi allt um málið var mun auðveldara að tala um það við aðra. Það var mjög frelsandi að geta loksins verið hreinskilinn um það hver ég í raun og veru er. Það er galið að þurfa að fela svo stóran hluta af sjálfum sér.“

Allt hefur sinn tíma

Mikið hefur verið rætt og ritað um bakslag í baráttu hinsegin fólks á Íslandi undanfarin misseri en Sir Stephen hefur ekki orðið var við slíkt í Bretlandi. „Auðvitað getur alltaf komið bakslag. Hugmyndin um karl, konu og börn sem fjölskyldu er þúsund ára gömul og við umbyltum henni ekki á nokkrum árum. Sjálfur virði ég sjónarmið fólks sem ekki er sátt við samkynhneigð enda þurfa allir sinn tíma til að þroskast og sætta sig við breytingar. Það er ekki rétt að þvinga þessu upp á fólk. Besta leiðin til að sannfæra fólk er að vingast við það og fræða það í rólegheitunum. Margir sem voru á móti hjónabandi samkynhneigðra breyttu ekki um afstöðu fyrr en þeir kynntust slíkum pörum og áttuðu sig á því að sambönd okkar voru ekkert frábrugðin samböndum þeirra sjálfra. Ég á náinn vin í New York sem er trans kona og hún er mjög reið um þessar mundir; ekki út í hin íhaldssömu gildi heldur trans samfélagið, sem henni finnst ganga of hart fram og biðja um of mikið of snemma. Fólk verður að fá tíma til að melta þessar breytingar og ná áttum.“

Heilun hins óheila

Fyrsta skáldsaga Sir Stephens, The Final Retreat, kom út í Bretlandi árið 2018 og á Íslandi hjá Hringaná í fyrra undir heitinu Fokið í flest skjól, í þýðingu Ara Blöndals Eggertssonar. Hún er í dagbókarformi og fjallar um raunir kaþólsks prests, kynlífsfíkn hans og efasemdir og togstreitu gagnvart trúnni. Spurður hvers vegna hann hafi valið það efni svarar Sir Stephen:

„Það er löng saga. Ég velti því í tvígang fyrir mér sjálfur að gerast prestur enda þótt þessi bók sé ekki á neinn hátt sjálfsævisöguleg. Við hugsum með gjörólíkum hætti, ég og þessi tiltekni prestur. Ég er ekki þunglyndur og örvæntingarfullur og hef aldrei glímt við sjálfsvígshugsanir. Ég hef hins vegar kynnst mörgum prestum gegnum tíðina og þekki því týpuna á bak við þessar hugsanir. Hvernig á prestur að heila aðra ef hann er óheill sjálfur?“

Annars er það allt afstætt, eins og Sir Stephen bendir á, og tengt tónlistinni. „Maður áttar sig ekki alltaf á því að tónlistin sem maður flytur hefur fært einhverjum mikla gleði. Maður er kannski ekki í sínu besta skapi sjálfur en tónlistin miðlar eigi að síður gleðinni með óhlutbundnum hætti sem stendur fyrir utan tónlistarmanninn sjálfan.“

Sir Stephen lítur frekar á bókina sem langt ljóð en skáldsögu, í þeim skilningi að hún segir ekki sögu með hefðbundnum hætti. „Mig langaði ekki að skrifa hefðbundna sögu, þetta var miklu frekar módernísk tilraun, þar sem það sem ég skil út undan er mikilvægara en það sem ég held inni. Dagbókarformið er leið til að ýja að hlutum sem ég segi ykkur ekki frá. Það er skissa sem opnar ekki endilega allar dyr, skuggi sem erfitt er að ráða í. Markmiðið var öðru fremur að skapa andrúmsloft. Mig langaði líka að stuða fólk, fá það til að súpa hveljur, sem er hreint ekki auðvelt á 21. öldinni, þegar allt hefur verið sagt og allt hefur verið gert. Þegar ég byrjaði að leita hófanna hjá útgefendum var ég spurður hvort ég vildi ekki hafa þetta í meira söguformi en svar mitt var nei. Það langar mig einmitt ekki að gera. Ef til vill er einhver skandinavískur bragur á þessu? Það er alltént meiri Sibelíus en Tjajkovskí í bókinni, það er fjarri efninu en samt svo ástríðulega nærri því.“

Nánar er rætt við Sir Stephen í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en hann kemur fram á tvennum tónleikum hér á landi í janúar og einum í febrúar og ferðast með Sinfóníuhljómsveit Íslands um Bretland í apríl. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »