Margir sett sig í samband við Carmeni eftir dóminn

Carmen segir dóm landsréttar vera sigur allra fórnarlamba Jóns.
Carmen segir dóm landsréttar vera sigur allra fórnarlamba Jóns. mbl.is/Eggert

Carmen Jóhannsdóttir segir marga hafa sett sig í samband við sig í kjölfar þess að Landsréttur dæmdi Jón Baldvin Hannibalsson sekan fyrir að hafa áreitt Carmeni kynferðislega. Dómurinn er að hennar mati sigur fyrir allar þær konur sem Jón hefur áreitt.

Já, það hefur fullt af fólki haft samband við mig. Alls konar fólk, bæði fólk sem ég þekkti fyrir 20 árum og líka fórnarlömbin hans sem hafa verið að fá einhvers konar uppreist æru með þessu. Ég er bara glöð að þetta fór svona, að ég þurfi ekki að vera eiga öðruvísi samtal núna. Þetta er góð tilbreyting.“

Búin að missa trúna á réttarkerfinu

Landsréttur sneri á föstudag dómi héraðsdóms þar sem Jón Baldvin var sýknaður seint á síðasta ári. 

Carmen viðurkennir að niðurstaðan hafi að vissu leyti komið henni á óvart:

„Ég var bara frekar hissa, maður er búinn að vera að missa svolítið trúna á íslenska réttarkerfinu í þessu ferli. En ég er mjög ánægð samt að dóminum var snúið við.“

Konur væru allt lífið í málarekstri

Dómurinn ber vott um viðhorfsbreytingu og kann að hafa áhrif til frambúðar að mati Carmenar. Þó viðhorf fólks til niðurstöðunnar sé misjafnt telur Carmen hann geta haft varnaðaráhrif.

„Ef konur ættu að kæra hvern einasta aðila sem áreitir þær kynferðislega væru þær alla ævi að því. Þetta er svona „one for the team“,“ segir Carmen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert