Segir SGS og SA fegra samninginn

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir samning Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins langt frá því að vera samningur sem Efling gæti sætt sig við. 

Efling er annað tveggja félaga SGS sem hélt samningsumboði sínu og eru því ekki aðilar að samningi þeim sem undirritaður var í gær. 

Málin vandist þegar einn samningur er kominn

Spurð hvort samningastaða Eflingar versni við undirritun umrædds samnings, segir Sólveig það spurningu sem eigi rétt á sér. 

„Auðvitað vandast málið þegar búið er að undirrita fyrir einn hóp, en það er bara staðan og við þurfum bara að takast á við hana. Við vissum alltaf að þetta gæti gerst.“

Henni þykir miður að hin félögin í SGS hafi ekki viljað fara aðra leið, bindast böndum með Eflingu og nýta stærsta styrk hreyfingarinnar, sem sé félagsfólkið sjálft. 

Samninganefnd Eflingar fundar á morgun og fer yfir stöðuna. Sólveig segir engan bilbug á Eflingu þó þau komi ein að samningaborðinu. Þá sé vert að geta þess að enn er ósamið um kjör 2/3 hluta alls launafólks innan Alþýðusambandsins. 

Selja félagsfólki sama hagvaxtaraukann tvisvar

Sólveig Anna bendir á að í samningnum sé talað um tiltekna hækkun í hefðbundnum skilningi skilningi kjarasamninga. Sú tala blekki því ofan á 22 þúsund króna hækkun sé búið að smyrja hagvaxtarauka, sem þegar var um saminn. 

„Það var samið um hagvaxtaraukann árið 2019. Hann hefði því alltaf orðið og fólkið hafði hann þegar í hendi. Ég undrast það mjög að menn skuli grípa til slíkrar nálgunar, taka eitthvað sem þegar var á leið til fólks og SA hefði ekki getað samið sig undan, og bæta því ofan á þessa umsömdu hækkun, til að láta hana líta út fyrir að vera mun hærri en hún raunverulega er.“

Sólveig segir samningsaðila beita þessari aðferð til að fegra niðurstöðuna. „Við í Eflingu myndum aldrei selja félagsfólki okkar eitthvað sem þegar væri samið um.“

Þá var einnig samið um töfluhækkanir. Sólveig segir þær koma til með að skila vissum hóp aukinni hækkun en það sé takmarkaður hópur. 

Fjarri þeirri nálgun sem Efling lagði til

„Þetta var allt gert með miklum hraða og okkar afstaða er sú að enginn græði á svona hröðum vinnubrögðum nema atvinnurekendur.“

Efling kom fram með tilboð í síðustu viku þar sem fallist var á að gerður yrði skammtímasamningur, ef haldið yrði í krónutöluhækkanir þær sem komu fram í upprunalegri kröfugerð hreyfingarinnar, auk 15 þúsund króna framfærsluuppbót til að koma til mót við eilífan hallarekstur á heimilum láglaunafólks. 

„Þessi niðurstaða hjá SGS og SA er mjög fjarri þeirri nálgun.“

Í góðu sambandi við Ragnar

Sólveig kveðst fagna ákvörðun VR að snúa aftur að samningaborðinu í samvinnu við LÍV og samflot rafiðn- og tæknifólks. Hún sé í góðu sambandi við Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR.  

Efling hefur ekki vísað viðræðum sínum við SA til ríkissáttasemjara. Ef til þess kæmi útilokar Sólveig ekki að hreyfingin kæmi til með að slást í hóp hinna þriggja samningsaðilanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert