Fékk köllun við lestur eddukvæða

Heiðrún Tryggvadóttir hefur verið skipuð skólameistari við Menntaskólann á Ísafirði, …
Heiðrún Tryggvadóttir hefur verið skipuð skólameistari við Menntaskólann á Ísafirði, sjálf stúdent frá skólanum og fékk köllun sína til að gerast íslenskukennari við lestur eddukvæða. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef starfað mjög víða, maðurinn minn var afleysingaprestur svo ég hef kennt úti um allt land,“ segir Heiðrún Tryggvadóttir, nýskipaður skólameistari Menntaskólans á Ísafirði frá 1. janúar 2023 að telja, en umsækjendur um stöðuna voru tveir.

Heiðrún býr því yfir víðtækri reynslu, hvort tveggja úr grunn- og framhaldsskóla, og er íslenskukennari, lauk BA-prófi í íslensku og kennslufræði til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands árið 1997, M.Ed.-prófi í uppeldis- og menntunarfræði frá sama skóla árið 2015 og leggur nú stund á diplómanám í opinberri stjórnsýslu.

Heiðrún er Ísfirðingur í húð og hár, borin þar og barnfædd, og afleysingapresturinn fyrrverandi reynist vera séra Fjölnir Ásbjörnsson sem fékk fast brauð fyrir vestan árið 2008 og hafa þau hjónin búið þar síðan.

Menntamálaáhuginn ættgengur

„Ég fékk áhugann á menntamálum eiginlega með móðurmjólkinni, foreldrar mínir störfuðu báðir í framhaldsskóla svo þetta er eiginlega ættgengt,“ segir skólameistarinn nýi sem fékk köllun sína til íslenskukennslu þegar hún las eddukvæði í menntaskóla, raunar einmitt þeim menntaskóla sem hún mun leiða frá áramótum en Heiðrún varð stúdent þaðan.

Við nánari eftirgrennslan kemur í ljós að móðir Heiðrúnar, Guðrún Stefánsdóttir, var um árabil náms- og starfsráðgjafi við Menntaskólann á Ísafirði, og Tryggvi Sigtryggsson faðir hennar kenndi þar málmiðngreinar. Skólaræturnar liggja þó aldeilis víðar hjá Heiðrúnu og fjölskyldu hennar.

Þegar ég kynntist manninum mínum vorum við bæði í HÍ og ég var þá í kennslufræðinni. Foreldrar hans unnu þá báðir í framhaldsskóla, FNV á Sauðárkróki, og störfuðu þar um árabil, tengdamóðir mín, Steinunn Hjartardóttir, sem efnafræðikennari og tengdafaðir minn, Ásbjörn Karlsson, sem áfangastjóri,“ segir Heiðrún frá.

Algjört kennarabarn

„Seinna tók maðurinn minn kennslufræði og hefur verið stundakennari í MÍ um árabil. Ég á auk þess fleiri nána ættingja sem starfa við skólamál og skólamálin hafa verið mjög plássfrek í mínu lífi og þá meina ég plássfrek í góðri merkingu. Skólamálin þurfa nefnilega að hafa pláss í tilveru okkar enda eru þau mikilvægur þáttur, en þó alls ekki sá eini, til að mennta börnin okkar og unglingana og undirbúa þau vel undir líf og störf í lýðræðisþjóðfélagi. Það eru forréttindi að fá að koma að því,“ heldur nýi skólameistarinn áfram.

Sem fyrr segir er Heiðrún stúdent frá Menntaskólanum á Ísafirði og síðasta veturinn hennar þar voru báðir foreldrar hennar starfandi við skólann. „Ég upplifði mig sem algjört kennarabarn,“ játar hún og segist hafa farið beint í íslensku við HÍ eftir stúdentspróf, ákveðin í að verða íslenskukennari eftir kynni sín af eddukvæðum og norrænni goðafræði.

Nýi skólameistarinn hefur starfað við menntamál frá 1997 og, sem fyrr segir, kennt við grunn- og framhaldsskóla. Hún var verkefnastjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða árin 2009 – 2010, kenndi og annaðist gerð námsefnis hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða 2009 – 2013 og hefur starfað við Menntaskólann á Ísafirði frá árinu 2015.

Hefur hún þar gegnt stöðu áfangastjóra auk þess að leysa af sem aðstoðarskólameistari og verið starfandi skólameistari frá byrjun þessa árs. Eins hefur hún gegnt ýmsum trúnaðarstörfum um árabil.

„Ég kenndi við skólann í tvö ár eftir að ég lauk kennsluréttindanáminu en fór svo á flakk áður en ég kom þangað aftur árið 2015. Fram að því hafði ég verið að kenna en síðan er ég búin að vera í stjórnun þótt það hafi kannski ekki verið hugmyndin upphaflega,“ játar Heiðrún sem lagði stund á stjórnunarnám við menntavísindasvið HÍ og fékk svo að eigin sögn gott tækifæri til að koma inn í afleysingu við Menntaskólann á Ísafirði.

Hoppuðu á fjarnámsvagninn

Nýja staðan leggst vel í Heiðrúnu. „Hér er mjög góður starfsmannahópur og skemmtilegir nemendur og góðir, ég verð að nefna að það er aðdáunarvert hvað nemendurnir hafa verið öflugir í að rífa upp félagslífið í skólanum eftir faraldurinn. Hér er mjög góður andi og þetta leggst vel í mig,“ segir hún.

Menntaskólinn á Ísafirði hefur verið í örum vexti síðustu ár, orðinn rúmlega 50 ára gamall en skólinn var stofnaður árið 1970. Við hann nema nú 440 nemendur, hvort tveggja í staðnámi og fjarnámi. „Við hoppuðum á fjarnámsvagninn eins og svo margir aðrir og erum með stóran hóp nemenda í fjarnámi. Eins bjóðum við hvort tveggja bóknám og verknám,“ segir Heiðrún og fagnar því að verknámið njóti nú aukinna vinsælda en á þeim vettvangi geta nemendur lagt stund á grunnnám háriðngreina, húsasmíði, vélstjórn, stálsmíði og grunnnám rafiðna.

„Við erum náttúrulega eini framhaldsskólinn á stóru svæði svo við reynum að bjóða upp á töluvert gott úrval og 40 prósent okkar nemenda eru í verknáminu,“ segir Heiðrún og kveður dagskólanemendur fyrst og fremst vera Vestfirðinga á meðan fjarnemendur séu um allt land og auk þess erlendis.

Hóf göngu sína í gamla barnaskólanum

„En kjarnastarfsemin okkar snýst um fólk á Vestfjörðum og með bættum samgöngum erum við í fyrsta skipti með stóran hóp nemenda frá suðurfjörðunum sem er ótrúlega ánægjuleg þróun,“ heldur Heiðrún áfram, en Fjölbrautaskólinn á Snæfellsnesi heldur úti framhaldsdeild á Patreksfirði sem framhaldsskólanemendur á suðurfjörðunum hafa sótt í. „En þar er ekki verknám svo þau hafa verið að koma svolítið hingað í verknámið,“ segir Heiðrún.

Húsnæðismál eru líklega með efstu málum á baugi hvers einasta skóla landsins, óháð skólastigi, og er Menntaskólinn á Ísafirði þar engin undantekning, enda hóf skólinn göngu sína í gamla barnaskólanum árið 1970.

„Við erum að vonast til að hér verði farið að byggja við verknámsaðstöðuna á næstu árum, Ásmundur Einar [Daðason menntamálaráðherra] var hér nýlega í heimsókn og gaf munnlegt vilyrði fyrir því og við bindum miklar vonir við að það verði að raunveruleika. Þannig að skólinn er í stöðugri þróun og þannig á skólastarf auðvitað að vera,“ segir Heiðrún Tryggvadóttir, nýr skólameistari Menntaskólans á Ísafirði, að lokum.

mbl.is