Fimm sem réðust á einn ófundnir

Mennirnir voru farnir þegar lögreglan kom á vettvang.
Mennirnir voru farnir þegar lögreglan kom á vettvang. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki tekist að hafa hendur í hárri fimm karlmanna sem réðust á einn mann í Kópavogi um hálfsjöleytið á laugardagskvöld.

Að sögn Gunnars Hilmarssonar aðalvarðstjóra var um kýting að ræða á milli manna sem höfðu verið á skemmtistaðnum Catalínu. Árásin átti sér stað í Auðbrekku, skammt frá skemmtistaðnum.  

Mennirnir voru farnir þegar lögreglan kom á vettvang og segir Gunnar að maðurinn sem var fluttur á slysadeild hafi ekki meiðst alvarlega.

Engin kæra hefur verið lögð fram vegna árásarinnar og reiknar Gunnar ekki með því að málið verði rannsakað frekar af lögreglunni.

mbl.is