Synjað þrátt fyrir að vera selt á EES-svæðinu

Félagið Dista ehf. segir vöruna sem ÁTVR hafnaði á grundvelli …
Félagið Dista ehf. segir vöruna sem ÁTVR hafnaði á grundvelli sjónarmiða um almannaheilbrigði uppfylla kröfur EES um mat- og drykkjarvörur. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Í dag fór fram fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli innflutningsfyrirtækisins Dista á hendur Ívari J. Arndal, forstjóri ÁTVR, vegna ákvörðunar ÁTVR um að hafna umsókn félagsins um sölu á vörunni Shaker Original Alchol & Caffeine hjá ÁTVR.

Í stefnu Dista er ljóst að upphaf málsins má rekja til þess þegar félagið sótti um hjá ÁTVR í október 2020 að varan yrði tekin í sölu og dreifingu hjá ÁTVR, en varan Shaker er síder sem er gerjaður eplasafi-eplavín-með koffeini sem innihaldsbragðefni.

Þá er koffein innihald undir þeim mörkum sem kallar á varúðarmerkingar auk þess sem varan er framleidd í Danmörku og uppfyllir kröfur EES um mat- og drykkjarvörur. Þá er varan seld á EES-svæðinu sem og félagið fékk heimild Matvælastofnunar (MAST) til markaðssetningar. 

Hafnað á grundvelli sjónarmiða um almannaheilbrigði

ÁTVR hafnaði umsókn félagsins fyrst í febrúar 2021, en var gert að taka nýja ákvörðun eftir að ákvörðun sú var kærð til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Eftir margra mánaða málsmeðferð lauk málinu svo með höfnun í janúar 2022.

Í umræddri stefnu sem höfðuð var á hendur ÁTVR  kemur fram að umsókn félagsins um að fá vöru sína selda hjá ÁTVR hafi verið hafnað á grundvelli sjónarmiða um almannaheilbrigði með hliðsjón af þekktum staðreyndum um skaðsemi óhóflegrar neyslu áfengis.

Taldi ÁTVR að varan, sem inniheldur bæði áfengi og koffein, innihéldi koffein til að ná fram „þekktum örvandi áhrifum þess“.  Enn fremur var því haldið fram af hálfu ÁTVR að markaðssetning orkudrykkja sé oft beint að ungu fólki og að hafa verði í huga að viðbúið sé að ungt fólk sýni svipaða neysluhegðun eftir að áfengiskaupaaldri sé náð.

Á þessar röksemdir ÁTVR féllst Dista aftur á móti ekki á og taldi félagið umrædda ákvörðun vera ólögmæta og því neyddist félagið til að fá ákvörðunina ógilta fyrir dómi.

mbl.is