Ísinn brotnaði undan drengjunum

Lögreglan varar við ísilögðum vötnum, lækjum og ám.
Lögreglan varar við ísilögðum vötnum, lækjum og ám. Ljósmynd/Lögreglan

Drengirnir sem urðu strandaglópar á eyju í Elliðavatni í gær höfðu lent í vatninu eftir að ísinn brotnaði undan þeim. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar þar sem hún varar við ísilögðum vötnum, lækjum og tjörnum sem geta haft mikið aðdráttarafl í kuldanum.

Kalla þurfti út dælubíl og sjúkrabíl til að bjarga drengjunum í gær af eyjunni en Sigurjón Hendriksson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is í gær að málið hefði verið leyst á stuttum tíma. 

Ekki er talið að drengjunum hafi orðið meint af volkinu og fór því betur en á horfðist.

Í tilkynningu á vef lögreglunnar eru foreldrar og forráðamenn beðnir um að gera börnum grein fyrir hættunni sem getur fylgt óöruggum ís og er fólk hvatt til að láta vita ef það sér einhvern á slíku svæði.

mbl.is