„Tillögur Sjálfstæðisflokksins eru sýndarmennska“

Hild­ur Björns­dótt­ir, odd­viti sjálf­stæðismanna, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heilsuðu …
Hild­ur Björns­dótt­ir, odd­viti sjálf­stæðismanna, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heilsuðu mótmælendum fyrir utan fundarsal borgarstjórnar í dag. mbl.is/Eggert

„Tillögur Sjálfstæðisflokksins eru sýndarmennska,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is.  

Borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins leggja til á fundi borgarstjórnar í dag breyt­ing­ar á fjár­hags­áætl­un Reykja­vík­ur fyr­ir 2023, sem spari a.m.k. 7.235 millj­ón­ir króna.

„Þar er látið að því liggja að það sé hægt að fækka starfsfólki borgarinnar um 5%, án þess að það bitni á þjónustu við fatlað fólk, leikskólabörn og grunnskólabörn. Það er bara algjört óraunsæi, algjört óraunsæi,“ segir Dagur en í tillögum Sjálfstæðisflokksins er lagt til að skera niður launakostnað með því að fækka fólki í yfirbyggingunni. Þar á meðal borgarfulltrúum. 

Dagur segir að ákvörðun um fjölda borgarfulltrúa sé tekin í lok hvers kjörtímabils. 

Skerða ekki grunnþjónustu

„Við höfum þvert á móti sagt að við séum að fara í þessar aðgerðir án þess að hækka gjaldskrár á fólk og fjölskyldur, án þess að skera niður í grunnþjónustunni og án þess að hætta að þróa þjónustuna með fjölgun leikskólaplássa og þjónustu við fatlað fólk.

Það er nú galdurinn við að reyna gera þetta vel, faglega og þannig að vel fari. Þú getur lent í alls konar ytri aðstæðum en þú mátt ekki fórna því sem mestu skiptir, sem er samfélagið sem okkur er trúað fyrir í gegnum þjónustu og fjárveitingu borgarinnar. Þá vakt ætlum við að standa,“ segir hann og bætir við að Sjálfstæðisflokkurinn verði að útskýra sínar tillögur sjálfur. 

Frá fundi borgarstjórnar í dag. Meðal annars verður fjárhagsáætlun fyrir …
Frá fundi borgarstjórnar í dag. Meðal annars verður fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 rædd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Velta við öllum steinum

Dagur segir að tillögur meirihlutans bitni ekki á ungmenna- og æskulýðsstarfi. 

„Við erum að velta við öllum steinum. Við erum að gera það þannig að það bitni ekki á grunnþjónustunni. Í þeim tilvikum sem nefnd hafa verið í umræðunni erum við að leita annarra leiða til þess að ná sömu markmiðum,“ segir hann og nefnir að tillagan um starfsemi Sigluness hafi verið lögð fram í því skyni að siglingaklúbburinn tæki við starfseminni. 

Tillagan hefur aftur á móti verið send til íþrótta- og tómstundasviðs til skoðunar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert