Vilja að stjórnvöld verði virkari í baráttunni

„Ákvarðanir þjóða á þessum vettvangi hafa bein áhrif á ungt …
„Ákvarðanir þjóða á þessum vettvangi hafa bein áhrif á ungt fólk og mótun heimsins sem þau munu lifa í það sem eftir er ævi sinnar,“ segir í yfirlýsingunni. mbl.is/RAX

Ungmennafulltrúar Norðurlandaþjóðanna hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði loftslagsmála krefjast þess að Norðurlandaþjóðirnar efli aðgerðir sínar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og verði virkari í leiðtogahlutverki sínu á þessum vettvangi, innanlands sem og á alþjóðavísu.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá ungmennafulltrúunum.

Ákvarðanir hafi áhrif á ungt fólk

Í yfirlýsingunni segir að tilgangur loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) og árlegu COP-ráðstefnunnar sé að samræma baráttuna á alþjóðavísu og takast á við loftslagsbreytingarnar og verstu áhrif þeirra.

„Ákvarðanir þjóða á þessum vettvangi hafa bein áhrif á ungt fólk og mótun heimsins sem þau munu lifa í það sem eftir er ævi sinnar,“ segir í yfirlýsingunni þar sem umhverfissinnarnir lýsa jafnframt yfir miklum vonbrigðum með niðurstöðu COP27 sem fór fram í Egyptalandi í síðasta mánuði. 

Til að bregðast við stöðunni vilja ungmennafulltrúarnir m.a. að stjórnvöld skerpi loftslagsmarkmið sín fyrir COP28 og uppfæri aðgerðir í samræmi við það, flýti fyrir því að notkun jarðefnaeldsneytis verði hætt og komi á fót skýru regluverki fyrir einkageirann þar sem kveðið er á um losunarmarkmið.

Vilja sjá fyrirtæki og fjárfesta taka frumvæði

Þá vilja ungmennafulltrúarnir einnig sjá norræn fyrirtæki og fjárfesta verða leiðandi í baráttunni við loftslagsbreytingar m.a. með því að setja sér metnaðarfull markmið og fjárfesta í verkefnum sem fela í sér loftslagsaðlögun.

Fyrirtæki eru einnig hvött til þess að deila, flytja út og gefa tæknilegar lausnir og nýjungar til þróunarlanda til að aðstoða þau við losunarmarkmiðin sín, orkuskipti og til þess að auka alþjóðlega samstöðu á vettvangi loftslagsmála.

Þá eru allir hvattir til þess að tryggja það að samráð verði haft við ungt fólk í ákvarðanatökum. 

„Kröfurnar sem við höfum lagt fram ná yfir breitt svið en við fullvissum ykkur um að við erum með mikið af hugmyndum um hvernig megi útfæra þær. Hafið hugrekki til þess að taka frumkvæði og heyra í okkur og gera okkur að virkum þátttakendum.“

mbl.is