114 börn leitað á spítala vegna flugeldaslysa

248 manns leituðu til Landspítala vegna flugeldaslysa á rannsóknartímabilinu.
248 manns leituðu til Landspítala vegna flugeldaslysa á rannsóknartímabilinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Alls leituðu 248 manns á Landspítala vegna flugeldaslysa frá desember árið 2010 og fram í janúar á þessu ári. Þar af voru 114 börn og voru 12 þeirra á leikskólaaldri en það yngsta var níu mánaða. Mikill meirihluti slasaðra var karlkyns, eða 181, sem gera 73%.

Meðalfjöldi slysa á ári er 21 talsins en alls urðu 28% slysa, eða 70 tilfelli, utan leyfilegs skottíma flugelda. Slysin voru misalvarleg, allt frá því að vera lítils háttar bruni upp í aflimanir og blindu.

Þetta kemur fram í rannsókn á flugeldaslysum sem birtist í grein í Læknablaðinu í dag.

13 hlutu varanlegt heilsutjón

Leggja þurfti 22 sjúklinga á Landspítala vegna áverka sem þeir hlutu í flugeldaslysum og lágu þeir samtals í 91 dag. Enginn lést en að minnsta kosti 13 urðu fyrir varanlegu heilsutjóni.

Af þeim 248 sem leituðu á spítalann hlutu 157 einstaklingar brunaáverka, þar af 104 á höndum. Augnaáverkar fundust hjá 67 einstaklingum og 97 hlutu opin sár.

Rannsóknin, sem byggist á textaleit í sjúkraskrám Landspítala, leiddi í ljós að 39% slysa megi rekja til gallaðra flugelda. Af þeim tilfellum þar sem flugeldategund var skráð ollu rakettur flestum slysum, eða 56. Þar á eftir komu skottertur sem ollu 43 slysum. Blys ollu 32 slysum.

Þá fundust 54 hliðarslys vegna flugelda í rannsókninni. Voru það meðal annars einstaklingar sem leituðu lækninga sökum loftmengunar, hrösuðu þegar þeir forðuðust flugelda, hrösuðu um flugeldarusl eða hlutu skaða af þegar dýr fældist.

Að minnsta kosti 28 börn án eftirlits

Í greininni kemur fram að efla þurfi forvarnir gegn flugeldaslysum og að íhuga þurfi strangari reglur um notkun þeirra. Sláandi hafi verið hversu mörg börn slösuðust hér á landi eða um helmingur þeirra sem leituðu á bráðamóttöku.

Af þeim 114 börnum sem komu á Landspítala voru 42 sögð undir eftirliti fullorðinna þegar slysið átti sér stað. Börn sem voru án eftirlits voru 28 en í 44 tilfellum lágu gögn um það ekki fyrir.

„Á tímabilinu slösuðust 12 börn á leikskólaaldri, eða að meðaltali eitt á ári. Sjö þeirra slösuðu sig á stjörnuljósum, ýmist sjálf við notkun þeirra eða þau komust í snertingu við notuð stjörnuljós. Einungis ung börn slösuðust vegna stjörnuljósa, börn á aldrinum 13 mánaða til 9 ára. Skyldueftirliti með börnum var ábótavant en einungis 37% slasaðra barna voru undir eftirliti. Stjörnuljós líta út fyrir að vera saklaus ljósadýrð en þau brenna skært og ná yfir 1000°C hita,“ segir í greininni.

Vantar skráningu um notkun áfengis

Þá kemur fram að skráningu er varðar notkun áfengis og annarra fíkniefna hafi verið ábótavant en engar upplýsingar um það komu fram í 237 tilfellum.

Af þeim tilfellum sem voru skráð voru 10 sagðir hafa verið undir áhrifum áfengis og einn sagður allsgáður. Enginn var sagður undir áhrifum annarra efna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert