Ástand þriggja flygla óljóst eftir brunann í FÍH

„Hér var einu sinni eldhús,“ segir Gunnar Hrafnsson en mildi …
„Hér var einu sinni eldhús,“ segir Gunnar Hrafnsson en mildi þykir að ekki hafi verr farið er eldhús í húsnæði FÍH gjöreyðilagðist í bruna á sunnudagskvöld. Ljósmynd/Gunnar Hrafnsson

„Þarna eru raftæki og rándýr flygill sem er ekki alveg bitið úr nálinni hvernig útkoman verður en það er verið að skoða það,“ segir Gunnar Hrafnsson, formaður FÍH, í samtali við mbl.is.

Eldur kviknaði í uppþvottavél í eldhúsi í húsnæði Félags íslenskra hljómlistamanna (FÍH) í Rauðagerði á sunnudagskvöld. Eldhúsið er gjöreyðilagt en búið er að hreinsa allt lauslegt út úr því.

Eldhúsið er staðsett bakvið hátíðarsal FÍH þar sem innangengt er úr salnum. Enn er óvíst hvaða áhrif reykmengunin hefur haft á tæki og hljóðfæri í salnum sem eru milljóna króna virði en þar inni eru meðal annars þrír flyglar. Víst er að hlutar söngkerfisins í salnum eru ónýtir. 

Gunnar Hrafnsson upplýsti félaga FÍH um brunann í tölvupósti í dag og segir að sem betur fer hafi boð viðvörunarkerfis Securitas borist í tæka tíð. Hann segir það vera mesta mildi að byggingin hafi ekki fuðrað upp.

Öskulag á flyglinum

„Þetta hefði getað farið mjög illa,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is.

„Það kraumaði þarna og komst kannski ekki að því súrefni en ég hugsa það hefði verið tímaspursmál hvenær þetta hefði getað farið með alla bygginguna.“

Gunnar segist vona að í lagi sé með flyglana sem eru inni í salnum og á það sérstaklega við um „rándýran“ flygill í eigu Menntaskóla í tónlist (MÍT).

„Það þarf sér menn til að þrífa þetta og taka út stöðuna. Það er alveg öskulag á flyglinum okkar,“ segir Gunnar.

Ljósmynd tekin af sviðinu í hátíðarsal FÍH áður en eldhúsið …
Ljósmynd tekin af sviðinu í hátíðarsal FÍH áður en eldhúsið brann. Ljósmynd/FÍH

Tæpt að ná að opna um áramót

Engir viðburðir verða í salnum fyrir jól en meðal annars voru bókaðir tónleikar, próf í tónlistarskóla FÍH og MÍT og æfingar.

„Við urðum að slútta öllu. Við vonumst með að koma með þetta í lag á nýju ári en það er tæpt að það gangi meira að segja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert