Eftirlitsstofnun EFTA aðvarar íslensk stjórnvöld

Höfuðstöðvar eftirlitsstofnunar EFTA í Brussel.
Höfuðstöðvar eftirlitsstofnunar EFTA í Brussel. Ljósmynd/Boubloub

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur aðvarað íslensk stjórvöld, sem er undanfari málshöfðunar vegna samningsbrotamáls gegn Íslandi vegna ófullnægjandi innleiðingar á reglum EES um vinnutíma.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni, þar sem segir að stofnunin hafi í dag sent íslenskum stjórnvöldum formlegt áminningarbréf þar sem kallað er eftir réttri innleiðingu á EES-reglum um lágmarkshvíldartíma og hámarksvinnutíma, en reglurnar varða skyldu til að skrá vinnutíma.

„Núgildandi löggjöf á Íslandi felur ekki í sér skyldu vinnuveitenda til að setja upp kerfi til að skrá vinnutíma. Íslensk stjórnvöld gáfu til kynna árið 2020 að til stæði að leiða ákvæði um slíka skyldu vinnuveitenda í lög, en af því hefur ekki orðið,“ segir í tilkynningunni.

Tilskipunin feli í sér skyldu fyrir vinnuveitendur

Tekið er fram að ESA hafi komist að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt evrópsku vinnutímatilskipuninni.

„Sú tilskipun hefur verið túlkuð af Evrópudómstólnum á þann veg að hún feli í sér skyldu fyrir vinnuveitendur í EES ríkjum til að setja upp hlutlægt, áreiðanlegt og aðgengilegt kerfi sem skráir vinnutíma starfsmanna.“

Að auki telur ESA að Ísland brjóti gegn 7. grein EES-samningsins, sem felur í sér skyldu ríkja til að innleiða tilskipanir EES-samningsins að fullu.
 
„Formlegt áminningarbréf er fyrsta skrefið í samningsbrotaferli gegn EES EFTA-ríki. Ísland hefur nú tvo mánuði til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ESA ákveður hvort fara skuli með málið lengra,“ segir að lokum.

Sjá bréfið í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina