Fjórar hænur í öðruvísi innflutningsboði

Hænurnar eru bæði hugsaðar sem ákveðin iðjuþjálfun og leið til …
Hænurnar eru bæði hugsaðar sem ákveðin iðjuþjálfun og leið til að leiða saman kynslóðirnar á svæðinu; leikskóla, grunnskóla og íbúa og aðra skjólstæðinga á Sólvangi. Ljósmynd/Aðsend

Fagnað var nýjum áfangasigri í gær í uppbyggingu á Sólvangi í Hafnarfirði þegar fjórar nýjar hænur fluttu inn í nýjan kofa í fallegum og endurgerði garði sem hugsaður er fyrir íbúa og skjólstæðinga Sólvangs. Hollvinasamtök Sólvangs færðu heimilinu hænurnar að gjöf. 

Leiða saman kynslóðirnar

Búið er að vinna í garði Sólvangs núna í haust og er skipulagið gert með tilliti til þarfa aldraðra og heilabilaðra. Mikil fegurð og útsýni er í garðinum og sést yfir Hamarskotslæk í átt til sjávar. Mikil spenna var að fá hænurnar í garðinn og munu dagdvalargestir sjá um að sinna þeim, sem er auk gleðinnar við starfann talin góð iðjuþjálfun. Hugmyndin er einnig að nemendur í leikskólum og grunnskóla í nágrenninu geti komið í heimsókn og þá hittist kynslóðirnar öllum til hagsbóta. 

Stór hópur á breiðu aldursbili fagnaði komu hænanna í dag. …
Stór hópur á breiðu aldursbili fagnaði komu hænanna í dag. Hér má sjá Rósu Guðbjartsdóttir bæjarstjóra og Höllu Thoroddsen forstjóra Sóltúns öldrunarþjónustu með starfsfólki Hafnarfjarðarbæjar og Sóltúns, Hollvinasamtökum Sólvangs og börnum frá leikskólanum Hörðuvöllum. Ljósmynd/Aðsend

Heildræn þjónustumiðstöð 

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar fagnaði með Sóltúni í gær og Halla Thoroddssen forstjóri Sóltúns tók á móti gjöf Hollvinasamtaka Sóltúns. Bæði Rósa og Halla eiga hænur og þekkja af eigin raun þá ánægju sem umönnun þeirra getur fært bæði ungum sem öldnum. Undanfarin ár hefur höfuðáhersla verið lögð á heildræna öldrunarþjónustu á Sólvangi og greiða fyrir aðgang eldri borgara að fyrirbyggjandi þjónustu og stuðningi við þá sem búa heima og njóta heimahjúkrunar og áframhaldandi þjónustu við þá sem búa á Sólvangi. 

mbl.is