Frost samfellt næstu tíu daga

Safnspár Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar gera ráð fyrir talsverðu kuldakasti um miðja …
Safnspár Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar gera ráð fyrir talsverðu kuldakasti um miðja næstu viku og frosti allt að 10 stigum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allar líkur eru á samfelldu frosti á landinu næstu tíu daga og mögulega lengur. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir í samtali við mbl.is að enn sé þó ómögulegt að spá hvort jólin verði rauð eða hvít. 

Á veðurvef Einars, Bliku, segir að tiltölulega milda loftið sem hefur verið á þvælingi vestur af landinu síðustu daga sé klárlega að gefa eftir.

Frá og með deginum í dag eru allar líkur á samfelldum frostakafla á landinu næstu tíu daga. Fyrst í stað verður vægt frost, að minnsta kosti við sjávarsíðuna, eða jafnvel alveg við frostmark. En síðan herðir kuldinn smám saman tökin.

Ekki er spáð neinni snjókomu í Reykjavík, fyrir utan næsta miðvikudag. 

Safnspár Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar gera ráð fyrir talsverðu kuldakasti um miðja næstu viku og frosti allt að 10 stigum. 

Gæti snjóað norðan- og austanlands

„Það er langt í það [jólin] og erfitt um að segja. Núna mun hann leggjast í norðan- og norðaustanáttir og þá élja flesta daga norðan- og austanlands,“ segir Einar og bætir við að því séu talsverðar líkur á að þar muni snjóa, svo fremi sem ekki geri einhverja hláku rétt fyrir jólin. 

Hann nefnir að snjóleysið á höfuðborgarsvæðinu sé orðið langur kafli. 

„Við bíðum eftir fyrsta deginum. Það er svo sem ekki vænlegt næstu vikuna með svona þurrum landvindi,“ segir Einar og bætir við að eftir lok næstu viku verði þó enn tími til jóla. 

„Það þarf ekkert mikið. Það þarf bara rétt sæmilega hagstæð skilyrði.“

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is