Óvíst hvort ákært verði í lekamálinu

Upptöku af myndskeiði af stunguárásinni í nóvember var lekið og …
Upptöku af myndskeiði af stunguárásinni í nóvember var lekið og rataði hún í fjölmiðla mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki liggur fyrir ákvörðun um mál starfsmanns lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem lak myndskeiði af stunguárásinni á Bankastræti Club í nóvember. Þetta staðfestir Ólaf­ur Þór Hauks­son héraðssak­sókn­ari í sam­tali við mbl.is.

Í síðustu viku var greint frá því að starfsmaðurinn væri ekki við störf hjá lögreglunni á meðan rannsókn málsins stendur yfir. 

Ólafur Þór segir að ekki sé komin niðurstaða í málið enn sem komið er. Þó er búið að ná utan um málið og klára rannsókn. 

„En það liggur ekki fyrir ákvörðun ennþá um framhaldið,“ segir hann og er því málið enn á borði héraðssaksóknara. 

„Þetta færist yfir til ákæranda þegar búið er að slá utan um rannsóknina.“

Því á enn eftir að koma í ljós hvort starfsmaðurinn verði ákærður en lekinn gæti varðað eins til þriggja ára fangelsisvist fyrir brot gegn þagn­ar­skyldu í op­in­beru starfi.

mbl.is