„Ungt fólk er að verða háværara“

Helga Hvanndal er fulltrúi íslenskra ungmenna á ráðstefnunni.
Helga Hvanndal er fulltrúi íslenskra ungmenna á ráðstefnunni.

Metfjöldi ungs fólks mætir á COP15, aðildarríkjaþing Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, sem hófst í dag og stendur til 19. desember í Montreal í Kanada. Þar munu fara fram lokaviðræður um nýjan alþjóðasamning um líffræðilega fjölbreytni, en kröfur unga fólksins snúa meðal annars að því að samningurinn taki tillit til mannréttinda og að auðug lönd og fyrirtæki axli ábyrgð.

Fulltrúar stjórnvalda hvaðanæva úr heiminum koma saman á þinginu og mun árangur viðræðna um samninginn, sem staðið hafa yfir um langt skeið, marka stefnu í alþjóðlegu samstarfi um líffræðilega fjölbreytni næstu tíu árin.

Helga Hvanndal Björnsdóttir og Sigrún Perla Gísladóttir, eru hluti af norrænu ungmennasendinefndinni og sækja ráðstefnuna fyrir hönd íslenskra ungmenna.

Mikill meðbyr með skoðunum ungs fólks

Allt lítur út fyrir að ungt fólk og þeirra kröfur fái meira pláss á þinginu en áður, en Helga segist skynja mikinn meðbyr með því að ungt fólk fái að hafa áhrif.

„Síðustu tvo daga hafa verið haldnir viðburðir af ungmennafulltrúum þar sem lykilatriði sem okkur finnst þurfa að skerpa á komu fram. Antiono Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna kom og var í pallborði. Það er því mikill meðbyr með því að ungt fólk fái pláss á ráðstefnunni,“ segir Helga í samtali við mbl.is.

Þá segir hún það hafa verið tekið út úr hornklofa í vinnuhóp á vegum sameinuðu þjóðanna um helgina að ungt fólk eigi að að fá að taka þátt í samningagerð. „Það verður vonandi samþykkt inn í samninginn um helgina. Það hefur ekki verið gert áður. Það er verið að búa til pláss sem er í takt við það sem er að gerast í loftslagsmálum. Ungt fólk er að verða háværara því þetta er eitthvað sem snertir kynslóðir næstu áratuga.“

Metnaðarfull markmið sett fram

Þingið er haldið annað hvert ár en á tíu ára fresti er samþykkt aðgerðarátætlun til tíu ára. Þeirri vinnu hefur hins vegar verið frestað síðustu tvö ár vegna Covid. Helga segir nokkuð metnaðarfull markmið sett fram aðgerðaráætluninni nú og verði hún samþykkt sé það mjög jákvætt skref í átt að verndun líffræðilegs fjölbreytilega.

„Það eru bundnar vonir við það núna að þetta verði álíka tímamótasamkomulag og Parísarsáttmálinn var fyrir loftslagsmálin. Ef það gerist þá verður alveg sögulegt að verða vitni að því,“ segir Helga sem fer út á ráðstefnunna á föstudag.

mbl.is