Handvömm við Jökulsárlón

Aldrei er of varlega farið þegar vélknúin ökutæki eru annars …
Aldrei er of varlega farið þegar vélknúin ökutæki eru annars vegar. Hér skal tekið fram að fólkið fjær á myndinni er ekki umráðamenn bifreiðarinnar. Ljósmynd/Tómas Ragnarsson

„Ég var þarna að leita að eftirlegukind, einni af þessum klukkulausu, var búinn að keyra allan hópinn yfir á ströndina og fór svo til baka að leita,“ segir Tómas Ragnarsson, leiðsögumaður hjá BusTravel Iceland, um óhapp konu nokkurrar, gestkomandi ferðamanns, sem náði með naumindum að koma sér út úr bifreið við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi á fjórða tímanum í dag áður en bifreiðin steyptist niður bratta brekku af stæðinu og út í lónið.

„Ég finn þessa manneskju ekkert og fer þá bara að taka myndir en heyri þá að það er eitthvað að gerast fyrir aftan mig, sný mér við og þá sé ég bara að stelpan er að dragast með bílnum og er einhvern veginn hálf út úr honum,“ heldur Tómas áfram en síðar kom í ljós að ökumaðurinn hafði í ógáti startað bifreiðinni í gír og hún því farið af stað.

Óð út í lónið

„Ég kastaði símanum frá mér, glænýjum síma, og tek sprettinn til hennar og er svona hálfnaður þegar hún nær að losa sig frá honum og bíllinn mallar bara þarna fram af, ruddi á undan sér einhverjum staur og braut titt sem var þarna líka,“ segir Tómas.

„Ég fór út í,“ segir leiðsögumaðurinn sem hugðist reyna að bjarga bifreiðinni á þurrt, „það var að falla að og ég ætlaði að minnsta kosti að reyna að drepa á mótornum svo þau þyrftu ekki að borga fyrir skemmdir á honum líka,“ segir hann frá. „Þá sá ég að bíllinn var í gír og handbremsu svo það var engin furða að hann fór löturhægt niður brekkuna, eins og traktor.“

Jökulsárlón skartar sínu fegursta síðdegis í dag þrátt fyrir aðskotahlut. …
Jökulsárlón skartar sínu fegursta síðdegis í dag þrátt fyrir aðskotahlut. Betur fór en á horfðist þegar ökumaður startaði bifreiðinni í gír og hún ók af stað fram af brekkubrún frá stæðinu við lónið. Ljósmynd/Tómas Ragnarsson

Borin von reyndist að bakka upp úr lóninu, hjólbarðar bifreiðarinnar náðu engu gripi og Tómas varð frá að hverfa, enda í vinnunni með hóp ferðamanna.

„Ég sá að það var kominn her manns þarna í kringum þau svo þau hafa fengið hjálp og væntanlega verða einhverjir viðbragðsaðilar kallaðir út til að ná bílnum á þurrt,“ segir Tómas Ragnarsson leiðsögumaður að lokum um atvik við Jökulsárlón í dag þar sem betur fór en á horfðist og vel má hafa til áminningar um að aldrei er of varlega farið þegar vélknúin ökutæki eru annars vegar.

mbl.is