Kaldhæðnisleg skipun jafnréttisnefndar Kópavogs

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, oddviti Pírata í Kópavogi, bendir á ójöfn …
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, oddviti Pírata í Kópavogi, bendir á ójöfn kynjahlutföll í nefndum bæjarins, meira að segja jafnréttisnefnd þar sem þó æva skyldi, en slíkt sé í trássi við landslög. Ljósmynd/Aðsend

„Mér finnst bara mikilvægt að við förum að lögum og þetta er nú ekki í fyrsta sinn sem þetta kemur upp í umræðunni,“ segir Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi, sem ritar pistil á Facebook-síðu sína undir fyrirsögninni „Skipta jafnréttislög einhverju máli? En sveitarstjórnarlög?“

Vísar Sigurbjörg þar til ákvæða hvorra tveggja nefndra laga þar sem kveðið er á um jafnt hlutfall kynja í nefndum sveitarstjórna. Hafi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ekki hugað að þessum áskilnaði laganna við skipun fulltrúa í nefndir og ráð á sínum fyrsta fundi í sumar.

Næststærsta sveitarfélagið sem fordæmi

Eftir að minnihlutinn gerði athugasemd við þessa skipan nefnda snemmsumars hafi því verið svarað til að málið yrði skoðað. Lítið hafi hins vegar orðið um efndir þar en í dag hafi minnisblað hins vegar borist frá lögfræðingi bæjarins þar sem fram komi að þrjár nefndir uppfylli ekki lögmælt skilyrði, hafnarstjórn, umhverfis- og samgöngunefnd og, „eins kaldhæðnislegt og það er“ segir Sigurbjörg við mbl.is, jafnréttis- og mannréttindanefnd.

„Þetta er um það bil þriðjungur af nefndum bæjarins,“ segir bæjarfulltrúinn og telur lítið gert úr því að uppfylla ákvæði laganna að þessu leyti sem henni þyki miður. „Við sem sveitarfélag, næststærsta sveitarfélag landsins meira að segja, og stjórnvald eigum að ganga fram með góðu fordæmi,“ heldur hún áfram og vonar að umræða um málið verði til þess að stjórnendur líti í eigin barm.

„Það er ekki nóg að benda bara á að ekki séu allir aðrir að uppfylla þetta ákvæði og þá séum við bara stikkfrí, eða eins og bent var á, að ef litið er yfir heildarfjöldann í öllum nefndum sé hlutfallið um það bil jafnt yfir allt. Eins er athyglisvert að benda á að í mjúku málunum, jafnréttis- og mannréttindanefnd, eru konur í meirihluta, og svo erum við með hafnarstjórn og umhverfis- og samgöngunefnd og þar eru karlar í meirihluta,“ segir Sigurbjörg.

Strax lagað í borginni

Bendir hún jafnframt á að eina konan í umhverfis- og samgöngunefnd sé fulltrúi minnihlutans í bæjarstjórn og eini karlmaðurinn í jafnréttis- og mannréttindanefnd sé það einnig.

„Þegar fyrsti fundur borgarstjórnar [í Reykjavík] var haldinn í vor hafði ekki verið gætt að þessu og þá kom sama staða upp með ójafnt kynjahlutfall í nefndum og það var bara lagað strax, ég held að það hafi bara gerst á næsta fundi, þau fóru í málið af því að þau tóku þetta alvarlega. En við fulltrúar minnihlutans í Kópavogi bentum strax á þetta í júní og þá var bara talað um að þetta yrði skoðað og síðan hefur ekkert gerst,“ segir Sigurbjörg Erla Egilsdóttir bæjarfulltrúi og vonast eftir úrbótum á skökkum kynjahlutföllum nefnda Kópavogsbæjar.

mbl.is