Klámmyndbandið kallar ekki á hertari öryggisreglur

Myndbandið var tekið upp afsíðis þar sem ekki er umgangur …
Myndbandið var tekið upp afsíðis þar sem ekki er umgangur á nóttunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólíklegt er að mál sem kom upp hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, þar sem starfsmaður varð uppvís að því að taka þátt í gerð klámmyndbands á vinnustaðnum, verði til þess að breytingar verði gerðar á öryggismálum eða aðgengi á vinnustaðnum. Þetta segir Birgir Finnsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu.

„Eins og staðan er núna þá tel ég það mjög ólíklegt af því við teljum þetta vera bara einstakt tilfelli sem hefur afleiðingar í för með sér fyrir starfsmanninn. Í grunninn þá treystum við okkar starfsfólki mjög vel,“ segir Birgir. „Við teljum að þetta sé algjör undantekning,“ bætir hann við.

Myndbandið tekið upp afsíðis

Þá tekur hann fram að rýmið sem myndabandið var tekið upp í sé töluvert afsíðis þar sem yfirleitt er ekki umgangur á næturvöktum.

„Rýmið sem þetta er tekið upp í er þar sem standa varabílar á nóttunni og það eru ekki áhafnir að hlaupa þarna inn og út. Það er ekki eins og þetta gerist í aðalbílasalnum þar sem útköllin eru og að menn hafi liggur við gengið framhjá þessu,“ útskýrir Birgir.

Starfsmanninum sagt upp störfum

Greint var frá því í fjölmiðlum fyrr í vikunni að klámmyndband væri í umferð sem tekið hefði verið upp í íslenskum sjúkrabíl. Við fyrstu skoðun hjá slökkviliðinu var ekki hægt að staðfesta að um væri að ræða bíl sem væri í notkun, en síðar kom í ljós að myndbandið var tekið upp innanhúss í húsnæði slökkviliðsins í Skógarhlíð.

Það reyndist svo vera starfsmaður sem bar ábyrgð á myndbandinu og var honum sagt upp störfum. Tveir einstaklingar sjást í myndbandinu, en hinn tengist slökkviliðinu ekki.

Málinu er formlega lokið af hálfu slökkviliðsins og hefur enga frekari eftirmála, að fram kom í tilkynningu frá slökkviliðinu í gær.

„Við erum al­gjör­lega miður okk­ar að allt það frá­bæra starfs­fólk sem starfar hjá SHS, vinnustaður­inn og okk­ar störf hafi verið dreg­inn inn í mál af þessu tagi,“ sagði jafnframt í tilkynningunni.

mbl.is