Mikill verðmunur á jólabókunum

mbl.is/Hari

Verðlagseftirlit ASÍ gerði könnun á verði jólabóka nýverið og skoðuðu bækur í Forlaginu, Pennanum Eymundsson, Sölku, Bónus, Hagkaup og Heimkaup. Ekkert mat var lagt á þjónustu eða upplifun kúnna í könnuninni, en könnunin var framkvæmd samtímis í ofantöldum verslunum.

Hæst 88% munur

Í ljós kom að Bónus var oftast með lægsta verðið, í 50 tilvika, en Forlagið kom næst með lægsta verðið í 25 tilvika. Penninn Eymundsson var oftast með hæsta verðið, eða í 43 tilvikum. Mesti verðmunur á bók var á bókinni Mennirnir með bleika þríhyrninginn sem var hæst í Pennanum Eymundsson á 4.299 eða í Forlaginu kostaði bókin 2.290 sem er 88% munur.

Áætlað hafði verið að hafa Nettó með í könnuninni en það tókst ekki því engar verðmerkingar voru á bókunum þegar könnunin var gerð.

Minna úrval í matvöruverslunum

Þegar skoðað var úrval bóka kemur kannski ekki á óvart að þar var Forlagið með mesta úrvalið af nýútgefnum bókum, eða 80 af 81 og Penninn Eymundsson með 79 af 81. Minnsta úrvalið var í Heimkaup þar sem 38 titlar fengust af 81 en næstminnst í Bónus þar sem 50 titlar fengust.

Forlagið var með lægsta verðið á öllum þýddum skáldverkum en Bónus með lægsta verðið í öðrum flokkum, ef bækurnar fengust í verslununum. 

Súlurit/ASÍ

Mikill verðmunur á íslenskum skáldverkum

Mesti verðmunurinn á íslensku skáldverki var á bókinni Hungur eftir Stefán Mána, en í Heimkaup kostaði hún 7.199 kr. en í Bónus 4.498 kr. sem er 60% munur. Munurinn á verði bókar Einars Kárasonar, Opið haf, var 49%, og á bók Lilju Sigurðardóttur, Drepsvart hraun var munurinn 45%. Í helmingi tilfella var verðmunur á bókatitlum frá 1500-3000 krónur, eða á 40 bókum af 81. Mesti munur á stakri bók í krónum talið var á bókinni Bjóluætt sem kostaði 19.999 í Pennanum Eymundsson, en lægsta verðið var hjá Forlaginu á 15.980 krónur, eða 4.109 króna munur.

Á íslenskum barna- og unglingabókum var einnig mikill verðmunur en mestur varð hann 56% á bókunum Fagurt galaði fuglinn sá; Orri Óstöðvandi: Draumur Möggu Messi og Sölku: Tímaflakkinu og varð verðið lægst í Bónus, en hæst í Pennanum.

mbl.is