Píratar í ræðustól til fimm í nótt

Björn Leví Gunnarsson og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmenn Pírata.
Björn Leví Gunnarsson og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmenn Pírata. Samsett mynd

Önnur umræða fjárlaga stóð yfir á Alþingi til klukkan fimm í nótt þar sem þingmenn Pírata voru í aðalhlutverki.

Þeir gagnrýndu forseta Alþingis fyrir að slíta ekki fundi fyrr og fresta honum til morguns. Sögðust þeir vilja að tekið væri þátt í umræðunum með þeim.  

„Ég kannast við þetta, þetta er svona störukeppni. Forseta finnst rosalega gaman að vera í störukeppni: „Ég ætla bara að halda þingfundi áfram langt fram eftir nóttu, ég geri það bara víst“,“ sagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, upp úr klukkan hálffimm í nótt.

„Ég tek áskoruninni sko því þetta er algjörlega í boði forseta Alþingis að haga sér svona.“

Hann sagði að ef forseti hefði í alvörunni viljað að umræðurnar væru með skipulögðum hætti, ekki á nóttunni, þyrfti hann eingöngu að „tala við fólk“.

Fyrst staðan væri svona kvaðst hann vilja grípa tækifærið og segja allt sem hann gæti um fjárlögin. „Það er mjög undarlegt að vera með næturfund við þetta tilefni. Vegna þess er ég aðallega í mótþróa við svoleiðis fundarstjórn,“ bætti hann við undir dagskrárliðnum fundarstjórn forseta.

Umræðan ekki fram úr hófi

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingkona Pírata, sagði umræðuna um fjárlögin vera komna skammt á veg og bætti við að eðlileg og sanngjörn krafa væri að fresta henni til morguns þannig að hún færi fram „við eðlileg birtuskilyrði“.

Hún sagði umræðuna ekki hafa farið fram úr hófi. Hún hafi einungis farið fram í tvo daga, sem sé vel sloppið miðað við aðra umræðu um fjárlög.

Umræðan um fjárlög heldur áfram í dag. Þar er Arndís Anna fyrst á mælendaskrá. Fleiri Píratar fylgja síðan í kjölfarið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert