Var ófær um að stjórna gjörðum sínum

Frá aðgerðum lögreglunnar á vettvangi.
Frá aðgerðum lögreglunnar á vettvangi. mbl.is/Tómas

Áttundi kapítuli mannhelgisbálks Jónsbókar um óðs manns víg var hafður til hliðsjónar við ákvörðun miskabóta í máli manns sem skaut á tvo kyrrstæða bíla við Miðvang í Hafnarfirði í sumar. Í öðrum þeirra voru feðgar. 

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjaness að brotaþolarnir ættu rétt á miskabótum á grundvelli kapítulans, en Jónsbók er frá 13. öld.

Dómurinn var kveðinn upp 1. desember en var birtur í gær.

Kröfðust 8 milljóna en fengu 1,7

Feðgarnir gerðu hvor um sig kröfu um miskabætur upp á fjórar milljónir króna, auk þess sem faðirinn krafðist um 420 þúsund króna í skaðabætur vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns. 

Fram kemur í dómnum að faðirinn sé í viðtölum hjá sálfræðingi vegna árásarinnar. „Hann fengi m.a. kvíðaköst, væri með einbeitningaskort, uppstökkur, hvatvís og væri hræddur við að fara út á meðal fólks. Engin gögn liggja fyrir um andlegt ástand brotaþola eftir atvikið en ekki er dregið í efa að brot ákærða hafi haft áhrif á andlega heilsu brotaþola og þar hafi ekki síst haft áhrif að ungur sonur hans var á vettvangi. Velferð þeirra beggja var því í hættu,“ segir í dómnum.

Fram kemur jafnframt að drengurinn hafi líklega ekki áttað sig að fullu á hættunni sem skapaðist og því hafi atvikið ekki haft alvarleg áhrif á andlega heilsu hans. Þrátt fyrir það ætti hann rétt á skaðabótum.

Héraðsdómur ákvað að faðirinn fengi greiddar 1,2 milljónir króna í miskabætur og sonur hans, sem var sex ára þegar árásin var gerð, hálfa milljón króna. Kröfunni um 420 þúsund króna skaðabæturnar var aftur á móti hafnað, þar sem ekki lá fyrir raunverulegur viðgerðarkostnaður á bíl mannsins sem skotið var á. Ákærða var þó gert að greiða honum rúmar 25 þúsund krónur vegna lyfja- og sjúkrakostnaðar.

Mafían látið bílljós lýsa inn 

Fram kemur að árásarmaðurinn hafi verið í mjög slæmu andlegu ástandi daginn sem atvikið varð. Hann hafi talað um að það hafi átt að ráða hann af dögum og virtist hann haldinn ranghugmyndum. Var hann metinn með geðrofseinkenni og hættulegur sjálfum sér og öðrum.

„Í viðtölunum kom fram hjá ákærða að bifreiðar væru í gangi á nóttunni og héldu fyrir honum vöku. Það hafi orðið sérstaklega slæmt þegar mafían hafi farið að láta bílljós lýsa inn til hans og þá hafi bifreiðar haldið fyrir honum vöku að undanförnu. Matsmaður, sem hitti ákærða tvívegis daginn sem atvikið varð, hefur staðfest framangreint fyrir dómi og hans mat er að ákærði hafi verið ófær um að stjórna gjörðum sínum á þeim tímapunkti.“

Stöðvaðist í sæti með barnabílstól

Fram kemur að ákærði hafi miðað með 22 kalibera riffli af gerðinni CZ513 af svölum íbúðar sinnar á mælaborð bíls feðganna, sem var í 33 metra fjarlægð. Annað skotið fór í gegnum lok á farangursrými hennar og stöðvaðist í baki á aftursætinu farþegamegin, þar sem drengurinn stóð, en í sætinu var barnabílstóll. Hitt skotið lenti ofarlega í afturhurð ökumannsmegin. Rúða bílsins brotnaði og rigndi glerbrotum yfir föðurinn, sem sat í skotstefnu kúlunnar í ökumannssætinu. Tilviljun ein hafi ráðið því að skotin lentu ekki á feðgunum.

„Ákærði kvaðst hafa séð mann í bifreiðinni en ekki barn. Þrátt fyrir það að ákærði sá manninn skaut hann á bifreiðina og virðist hafa látið sér það í léttu rúmi liggja að hann væri í bifreiðinni og hugsanlega fleira fólk.“

Maður­inn kom út að sjálfs­dáðum úr íbúð sinni en þá hafði lög­regla verið á svæðinu í rúma fjóra tíma. Var hann þá hand­tek­inn og flutt­ur á lög­reglu­stöð þar sem tek­in var af honum skýrsla. 

mbl.is