Langisjór tapaði gegn Skattinum

Íslenska ríkið er sýknað af kröfum félaganna.
Íslenska ríkið er sýknað af kröfum félaganna. mbl.is/Hanna

Tvö dótturfélög Langasjávar stunduðu viðskipti innan fyrirtækjasamstæðunnar til skattalegs ávinnings og sýknaði Landsréttur því ríkið af kröfu félaganna í dag, þess efnis að ógiltir yrðu úrskurðir ríkisskattstjóra og úrskurður yfirskattanefndar.

Langisjór er einnig móðurfélag Almenna leigufélagsins, Ölmu, sem hefur undanfarið verið til umfjöllunar vegna hækkana á leiguverði.

Ríkisskattstjóri og yfirskattstjóri töldu óheimilt hjá félögunum, 14. júní ehf. og Brimgörðum ehf., að draga afföll af sölu skuldabréfa til Kaupþthing Bank S. A. í Lúxemborg, gefin út árið 2005, frá tekjum sínum í skattframtölum fyrir árin 2008-2012.

Afföll upp á hundruð milljóna

Í tilfelli 14. júní ehf. námu afföll af skuldabréfasölunni 859 milljónum en í málinu var tekist á um hvort heimilt hefði verið að draga verðbætur og afföll upp á 306 milljónir frá tekjum 14. júní þessi ár.

Í dómi Landsréttar í máli Brimgarða kemur fram að afföllinn hafi numið skuldabréfasölunni 1,26 milljörðum en í málinu var tekist á um hvort heimilt hefði verið að draga verðbætur og afföll upp á 940 milljónir frá tekjum félagsins þessi ár.

Látin bera hallann af sönnunarskorti

Byggðu félögin á því að skilyrðum laga um tekjuskatt hafi verið fullnægt þar sem kaupandi hefði verið nafngreindur að því er kom fram í samningi um kaup á bréfunum, sem voru handhafaskuldabréf. Því var deilt um það hver væri raunverulegur kaupandi bréfanna. 

Landsréttur taldi hins vegar að félagið yrði látið bera hallann af sönnunarskorti fyrir því að kaupandi skuldabréfanna, eða eftir atvikum sá sem bar endanlega áhættu af kaupum þeirra, hafi í reynd ekki verið aðili tengdur þeim. Félaginu hafi verið í lófa lagið að kalla eftir staðfestingu á því að skuldabréfin hafi ekki verið keypt fyrir áhættu tengds aðila eða framsled slíkum aðila.

Frábrugðið því sem almennt gerist í viðskiptum

Lagði dómurinn til grundvallar að um hafi verið að ræða aðila sem var tengdur félögunum í skilningi laga um tekjuskatt. Því hafi enginn vafi verið á því að ráðstafanir og viðskipti með skuldabréfin hafi verið verulega frábrugðin því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum milli ótengdra aðila, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um tekjuskatt. 

Tilgangurinn með viðskiptunum hafi fyrst og fremst verið skattalegur ávinningur og ekki skilyrði til að draga hin ætluðu afföll frá skattskyldum tekjum félaganna.

Ríkið var þá einnig sýknað af kröfum Langasjávar í Landsrétti í dag vegna dómana, þar sem ágreiningur laut að endurákvörðun ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum félagsins gjaldárin 2008 til 2012.

mbl.is