Niðamyrkur og börn í hættu við Melaskóla

Hér sést hversu dimmt er á horni Furumels og Hagamels …
Hér sést hversu dimmt er á horni Furumels og Hagamels á mót við Melaskólann, klukkan 8.30 að morgni. Ljósmynd/Halldóra Kristinsdóttir

„Við komum að gangbrautinni yfir Furumelinn, þá kemur barn á ljóslausu hjóli á blússandi ferð og yfir þar sem við erum þarna við götuna, og það kemur bíll akandi norður yfir Furumel og mesta mildi að ekki yrði slys,“ segir Gylfi Kristinsson.

Hann fer daglega í Vesturbæjarlaugina með konu sinni Jónínu Völu Kristinsdóttur og segir myrkrið á morgnana óásættanlegt.

Hann skrifaði í hóp íbúa Vesturbæjar á Facebook um ástandið:

„Ljósleysi á ljósastaurum á Furumel frá Reynimel, á Hagamel og á syðsta hluta Hofsvallagötu hefur vakið athygli okkar. Á þessum götum er fjöldi barna á leið í Melaskólann… Þetta ljósleysi og myrkur skapar stórhættu fyrir börn og aðra gangandi sem eiga leið um þetta svæði.”

Mikil umferð við skólann

Gylfi segir þetta skapa stórhættu fyrir börnin sem eru kannski að flýta sér í skólann eða gleyma sér í æsingi augnabliksins. Undir það tekur Halldóra Kristinsdóttir íbúi í Vesturbænum, sem tók myndina sem fylgir að ofan.

Hún segist búa þarna rétt hjá og fer snemma á morgnana til vinnu og segir að það hafi verið kolniðamyrkur síðustu daga á þessu svæði.

„Það er líka oft mikil umferð þarna við skólann, þar sem foreldrar eru að koma með börn í skólann, bakka og snúa við og þetta skapar mikla hættu,” segir hún.

Hafði samband við borgina

Gylfi segist hafa haft samband við borgina á netspjalli þeirra.

„Ég hafði samband við borgina, ef ég má persónugera hana, og fór inn á netspjallið og vakti athygli á þessu og fékk þá þau svör að lýsingin væri á ábyrgð Orku náttúrunnar og viðmælandinn á netspjallinu sagðist myndu koma þessari ábendingu á framfæri á þeim bænum.

En þegar við hjónin gengum þarna framhjá í morgun á leiðina í laugina, þá hafði ekkert gerst. En svo kíkti ég inn á Facebook um ellefuleytið og þá var einhver búinn að setja inn mynd af bíl sem var merktur ON og hann var á Furumelnum.

Þar voru tveir menn sem voru að bardúsa eitthvað við ljósastaur, svo vonandi er verið að laga þetta. En það kemur í ljós annað hvort í fyrramálið eða á mánudagsmorguninn,“ segir Gylfi og kveðst vonast til að ábendingin hafi borið árangur.

mbl.is