Segir eingreiðslu öryrkja sitja á hakanum

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata lagði til að útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra …
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata lagði til að útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra yrði tekið fyrir eftir áramót. mbl.is/Arnþór

Stjórnarandstaðan á Alþingi gagnrýndi ríkisstjórnina á þingfundi í dag fyrir að taka útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra á dagskrá á undan öðrum málum sem liggur meira á, til að mynda frumvarp um að greiða öryrkjum eingreiðslur fyrir jól. 

Tillaga Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, um að taka útlendingafrumvarpið af dagskrá og salta fram yfir áramót, var felld af meirihlutanum á Alþingi í dag.

„Afar skammt er eftir af starfsáætlun Alþingis og mörg þeirra mála sem bíða eru viðkvæm í tíma, en umrætt frumvarp um útlendinga er það svo sannarlega ekki og engin knýjandi þörf á að ljúka afgreiðslu þess fyrir áramót,“ sagði í tillögu Andrésar Inga.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var eini þingmaður meirihlutans sem tjáði sig í athugasemdum fyrir atkvæðagreiðslu um tillögu Andrésar Inga.

Hún sagði málið vera fullunnið og sá ekki ástæðu til þess að fresta þess að ræða það á Alþingi.

Þessu voru þingmenn stjórnarandstöðu ekki sammála og sögðu málið ekki vera fullunnið. Þeirra á meðal var Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins og varaformaður í allsherjar- og menntamálanefnd. Hann talaði meðal annars um það að ræða þyrfti „undarlegar breytingar“ á frumvarpinu. 

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins.
Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Raunveruleg neyð ríki

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar lýsti forgangsröðun stjórnarmeirihlutans sem ógeðfelldri.

„Tryggingastofnun getur ekki afgreitt eingreiðsluna til öryrkja fyrr en við höfum tekið hér fyrir og samþykkt bæði fjáraukalög og frumvarp velferðarnefndar,“ sagði Jóhann Páll. 

Hann sagði raunverulega neyð ríkja hjá fólki sem þurfi á eingreiðslunni að halda.

„Einhverra hluta vegna þá finnst stjórnarmeirihlutanum hér á Alþingi meira aðkallandi að skerða réttindi útlendinga heldur en að afgreiða þessi mál sem er algjör samstaða hér í þingsal. Þetta er svo ógeðfellt.“

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingar.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is