Bók Ragnars lofsömuð í Svíþjóð

Úti kom út á íslensku í fyrra og var ein …
Úti kom út á íslensku í fyrra og var ein söluhæsta bók ársins. mbl.is/Árni Sæberg

Úti eftir Ragnar Jónasson er spennusaga ársins í Svíþjóð, að mati dagblaðsins Göteposten. Þar segir að Úti sé „uggvænlegt kammerstykki sem kveikir innilokunarkennd í yfirgefnum veiðikofa í íslenskum óbyggðum í hryllilegu óveðri.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bjarti og Veröld.

Úti kom út á íslensku í fyrra og var ein söluhæsta bók ársins. Fyrr á þessu ári var greint frá því að kvikmyndagoðsögnin Ridley Scott hefði tryggt sér kvikmyndaréttinn á sögunni en hún kemur nú út víða um lönd. Meðal annars sagði gagnrýnandi Kirkus Review í Bandaríkjunum að Úti væri „hrollköld dásemd“ og gagnrýnandi Canberra Times í Ástralíu skrifaði að meistari norrænu glæpasögunnar ylli ekki vonbrigðum í sínum nýja innilokunartrylli. 

Útgáfuréttur nýjustu bókar seldur víða

Nýjasta bók Ragnars, Reykjavík – glæpasaga, sem hann skrifaði í samvinnu við Katrínu Jakobsdóttur kom út í haust og er á meðal söluhæstu bóka í jólavertíðinni, að segir í tilkynningunni.

Útgáfurétturinn á henni hefur nú þegar verið seldur út um víða veröld: til Bandaríkjanna og Bretlands, Þýskalands og Frakklands, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands.

Þá var Snjóblinda Ragnars valin besta glæpasaga síðustu 50 ára í Frakklandi á dögunum.

mbl.is