Von á kuldakasti sem fylgir heimskautalofti

Kuldinn gæti náð hámarki þegar líður á vikuna.
Kuldinn gæti náð hámarki þegar líður á vikuna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt lítur út fyrir að kuldakast verði um allt land næstu daga, sem gæti náð hámarki þegar líður á vikuna. Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. 

Því er spáð ytra að frostið verði meira en gengur og gerist hér á Íslandi. Hann kveðst vantrúaður á að spárnar muni að fullu ganga eftir.

Einar segir fremur milt loft yfir landinu núna en að það muni breytast. 

„Þótt það hafi verið kalt, sérstaklega inn til landsins, þá hefur ekki endilega verið kalt í lofti. Milt loft hefur legið fyrir ofan okkur og kuldinn aðallega stafað af yfirborðskælingu. Nú er að verða breyting á og seinni partinn á morgun og á þriðjudaginn munum við sjá heimskautaloft nálgast okkur sem upprunnið er yfir Norður-Grænlandi. Er það gegnkalt, ólíkt því lofti sem er yfir okkur núna. Þegar það kemur þá herðir á frostinu og það mun einnig gerast við sjávarsíðuna,“ segir Einar.

Kuldinn gæti náð hámarki þegar líður á vikuna. 

„Samkvæmt spám verður þetta heimskautaloft yfir okkur síðari hluta vikunnar og nær sennilega hámarki á fimmtudag, föstudag en mögulega fram á laugardag. Þá er gert ráð fyrir að það verði talsverður gaddur á landinu rétt á meðan.“

Einar Sveinbjörnsson.
Einar Sveinbjörnsson. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Svolítið svæsin spá

Til landsins berast að utan spár þar sem talað er um 15 stiga frost í höfuðborginni og jafnvel 20 stiga frost á Egilsstöðum. Einar er vantrúaður á að þetta muni ganga eftir og færir fyrir því rök. 

„Aðalspá evrópsku reiknimiðstöðvarinnar er svolítið svæsin. Þar er gert ráð fyrir 15 stiga frosti á höfuðborgarsvæðinu og það yrðu nú talsverð tíðindi því hér hefur ekki orðið svo kalt í háa herrans tíð. Einnig er gert ráð fyrir um það bil 18 stiga frosti á Akureyri og 20 stiga frosti á Egilsstöðum. Mér finnst þetta nú ekki trúverðugt,“ segir hann.

„Ég held að það sé alveg ljóst að það muni gera dálítið kuldakast um allt land en held að við eigum að tala varlega um svona háar tölur. Við höfum ýmsa mælikvarða til að meta kuldann í svona lofti. Til dæmis fyrirferð neðri hluta lofthjúpsins með svokallaðri þykkt en einnig frostinu sem er í 1.500 metra hæð sem er þrýstiflötur sem maður sér í öllum spálíkönum. Þar eru lægri tölur en við sjáum vanalega.“

Sjórinn nokkuð hlýr miðað við árstíma

Bætir hann því við að raunverulegum kuldaköstum hafi farið mjög fækkandi frá því sem áður var. 

„Eitt af því sem vinnur á móti er að minni ís er fyrir norðan land en á árum áður og hann er reyndar ekki mikið minni nú við Grænland en í meðalári. Þegar það varð mjög kalt á Íslandi hér áður, þá var ísinn stundum nálægur. 

Nú aftur á móti er sjórinn fyrir norðan land nokkuð hlýr miðað við árstíma. Þegar uppverming verður að neðan í svona köldu lofti þá dregur úr mesta gaddinum. Það gæti þýtt að meira verði um uppgufun og kannski snjókomu eða él fyrir norðan þegar þetta gengur yfir.

Það er svo sem ekki verið að spá neinu hríðarveðri en það verður éljamugga í strekkingsvindi. Með strekkingnum verður nokkur vindkæling,“ segir Einar Sveinbjörnsson í samtali við mbl.is.

Hann heldur úti vefnum blika.is þar sem mikinn fróðleik er að finna um veðrið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert