Breytingar á barnabóta- og vaxtabótakerfum

Katrín Jakobsdóttir á fréttamannafundinum í dag.
Katrín Jakobsdóttir á fréttamannafundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samhliða nýjum kjarasamningum mun ríkisstjórnin leggja áherslu á fjölgun íbúða og aukinn stuðning við barnafólk. Væri þeim aðallega beint að lág- og millitekjuhópum. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fréttamannafundi ríkisstjórnarinnar eftir undirritun samninga á almennum markaði í dag. Sagði hún samningana mikið fagnaðarefni og að í allri vinnunni í kringum þá hafi stjórnvöld verið í góðu sambandi við samningsaðila, m.a. í gegnum endurstofnað þjóðhagsráð.

Katrín kynnti ásamt Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra verkefni sem ríkisstjórnin ætlaði að fara í í kjölfar samninganna.

Sigurður Ingi fór yfir húsnæðismálin og byrjaði með að benda á rammasamkomulag milli ríkis og sveitarfélaga sem gerði ráð fyrir að byggðar yrðu 35 þúsund íbúðir á næstu 10 árum, en samkomulagið var kynnt upphaflega í júlí á þessu ári. Gert væri ráð fyrir að 30% íbúða verði á hagkvæmu og viðráðanlegu verði og 5% þeirra félagslegar íbúðir. Þá nefndi hann að stofnframlög ríkisins til að auka framboð íbúða á viðráðanlegu verði í almenna íbúðakerfinu verði 4 milljarðar á næsta ári.

Sigurður Ingi Jóhannsson ræddi húsnæðismálin.
Sigurður Ingi Jóhannsson ræddi húsnæðismálin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýting séreignarsparnaðar framlengt út 2024

Sigurður sagði jafnframt að húsnæðisbætur myndu hækka um 13,8% um áramótin, til viðbótar við 10% hækkun í júní. Þá væru tekjuskerðingarmörk hækkuð um 7,4%. Í vaxtabótakerfinu á að hækka eignaskerðingarmörk um 50% um áramót og þá verður almenn heimild til að ráðstafa séreignarsparnaði skattfrjálst til kaupa á húsnæði eða til að greiða inn á höfuðstól lána framlengt út árið 2024.

Bjarni kynnti breytingar á barnabótakerfinu, en þar var aðaláhersla á að einfalda ætti kerfið. Sagði Bjarni að draga ætti úr skerðingum og að jaðarskattar af völdum barnabóta myndu lækka. Sagði hann að með breytingum á kerfinu myndu 2.900 fjölskyldur til viðbótar við núverandi kerfi njóta stuðnings.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fór yfir breytingar á barnabótakerfinu.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fór yfir breytingar á barnabótakerfinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá verður sú breyting gerð að flýtt biðtími eftir bótum, sem í núverandi kerfi getur verið allt að eitt ár, verður nú aldrei meiri en 4 mánuðir eftir fæðingu barns. Sagði Bjarni jafnframt að heildarfjárhæð barnabóta yrði um 5 milljörðum hærri miðað við þessar breytingar en í núverandi kerfi á næstu tveimur árum.

Skoða eigi húsaleigulögin

Katrín lokaði fundinum með því að nefna að aðeins væri um skammtímasamning að ræða og að enn væri unnið að fleiri málum. Nefndi hún m.a. að koma ætti á fót starfshóp varðandi húsaleigulögin sem hún sagði að hefðu verið talsvert í umræðunni, en skiptu miklu máli. Þá ætti að auðvelda lífeyrissjóðum að fjárfesta í leiguhúsnæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert