Rannsókn lokið á brotum gegn á þriðja tug barna

Brotin sem lögregla hefur rannsakað voru meðal annars í gegnum …
Brotin sem lögregla hefur rannsakað voru meðal annars í gegnum Snapchat.

Rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum, á meintum kynferðisbrotum karlmanns á sextugsaldri gegn á þriðja tug grunnskólabarna, er lokið og hafa gögn málsins verið send héraðssaksóknara.

Öll brotin varða stúlkur undir 15 ára aldri.

Þetta staðfestir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum í samtali við mbl.is.

Maðurinn var í maí á þessu ári dæmdur í sex ára fangelsi fyrir gróf kynferðisbrot gegn fimm stúlkum á grunnskólaaldri, meðal annars nauðgun. Hann nálgaðist stúlkurnar í gegnum samskiptaforritið Snapchat og fór meirihluti brotanna fram þar í gegn með ýmsum hætti. Meðal annars með mynda- og mynbandasendingum. Maðurinn fékk stúlkurnar einnig til að hitta sig og braut gegn þeim.

Ekki verið tekin ákvörðun um ákæru

Þegar ákæra var gefin út í málinu á sínum tíma lá fyrir að maðurinn var grunaður um brot gegn fleiri stúlkum og segir Úlfar því hægt að tala um seinni hluta málsins.

„Rannsókn í því lauk í júní í sumar og öll rannsóknargögn voru send héraðssaksóknara með bréfi dagsettu 24. júní síðastliðinn,“ segir Úlfar í samtali við mbl.is.

„Sú rannsókn varðar á þriðja tug stúlkna undir 15 ára aldri.“

Spurður hvort um sé að ræða svipuð brot og og maðurinn var dæmdur fyrir í fyrri hluta málsins, svarar Úlfar því játandi.

Hjá héraðssaksóknara fengust þau svör að ekki hefði verið tekin ákvörðun um ákæru í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert