Hleypur 200 kílómetra á 20 hlaupabrettum

Ljósmynd/Aðsend

Davíð Rúnar Bjarnason hleypur á sunnudaginn 200 kílómetra í World Class Laugum til styrktar Píeta samtökunum. 20 hlaupabretti verða tekin frá fyrir viðburðinn og mun Davíð skipta um bretti eftir hverja tíu kílómetra sem hann hleypur. 

Viðburðurinn hefst klukkan þrjú á sunnudaginn og hvetur Davíð fólk til að koma og hlaupa með sér á einhverjum af tuttugu hlaupabrettunum þótt ekki sé nema í stuttan tíma. Viðburðurinn er á Facebook undir nafninu Hlaup fyrir hausinn! en Davíð segist spenntur að sjá hve margir geri sér leið í Laugar til að taka þátt.

Píeta reynst vel

Í samtali við mbl.is segir Davíð að hugmyndin hafi komið til hans á meðan hann hljóp á hlaupabretti í Laugum eins og allra aðra daga. Hann segist gera þetta fyrir Píeta vegna þess að samtökin hafi reynst fólkinu í kringum hann vel á síðustu árum.

„Ég veit hvað þau eru að vinna gott starf og ég veit að það vantar meiri umfjöllun um þetta og meira fjármagn í þessa starfsemi. Stuðningurinn sem fylgir því að vera með fólk með sér í svona hlaupi myndi kannski endurspegla stuðninginn sem fólk fær frá Píeta,“ segir hann.

Davíð bendir á að hér á landi sé bæði dýrt og erfitt að sækjast eftir geðheilbrigðisaðstoð og nefnir að hann sé sjálfur búinn að bíða í tvö og hálft ár eftir því að fá tíma hjá sálfræðingi þótt hann hafi efni á því. 

„Ég er búinn að vera reyna leita mér aðstoðar en það er búið að taka mig núna tvö ár og átta mánuði að bíða en ég er meira að segja ekki kominn með tíma hjá sálfræðingi,“ segir hann og bætir við að það syrgi hann að hugsa til þess hvernig aðstæðurnar eru fyrir þá sem hafa ekki efni á því að leita til einkageirans.

Alltof margir sem lifa biðina ekki af

„Það eru alltof margir sem lifa biðina ekki af. Þetta á ekki að vera svona, Píeta er alltof falið og það er ekki nóg fjármagn sett í þetta af ríkinu. Geðdeild lokar klukkan sjö á virkum dögum og klukkan fimm um helgar, það er bara kjaftæði.“

Davíð hefur áður hlaupið 168 kílómetra sem hann gerði í sumar í Hengill Ultra hlaupinu í Hveragerði en segir aðal áskorunina við þetta hlaup vera hversu leiðinlegt það mun vera. Aðspurður segist hann ekki hafa hugmynd um hversu langan tíma hlaupið mun taka en reiknar með að vera enn þá hlaupandi fram eftir mánudeginum.

Þeir sem vilja leggja Píeta lið og styrkja söfnun Davíðs geta lagt inn á eftirfarandi söfnunarreikning:

Rn.0123-26-051873
Kt.050589-2269

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert