Sjö þýðing­ar til­nefnd­ar

Bækur í bókabúð.
Bækur í bókabúð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna voru kunngjörðar í sjónvarpsþættinum Kiljunni á RÚV fyrir stundu. Að verðlaununum stendur Bandalag þýðenda og túlka í samstarfi við Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda. Þau eru veitt fyrir bestu þýðingu á bókmenntaverki og er tilgangur þeirra að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskrar menningar. Alls barst í ár 81 bók frá 23 útgáfum.

Tilnefndir þýðendur eru í stafrófsröð þeirra: 

  • Árni Óskarsson fyrir Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu eftir Olgu Tokarczuk sem Bjartur gefur út 
  • Friðrik Rafnsson fyrir Svikin við erfðaskrárnar: Ritgerð í níu hlutum eftir Milan Kundera sem Ugla útgáfa gefur út
  • Heimir Pálsson fyrir Norrlands Akvavit eftir Torgny Lindgren sem Ugla útgáfa gefur út
  • Jón St. Kristjánsson fyrir Uppskrift að klikkun eftir Ditu Zipfel með teikningum eftir Rán Flygenring sem Angústúra gefur út
  • Pétur Gunnarsson fyrir Játningarnar eftir Jean-Jacques Rousseau sem Mál og menning gefur út
  • Silja Aðalsteinsdóttir fyrir Aðgát og örlyndi eftir Jane Austen sem Mál og menning gefur út
  • Soffía Auður Birgisdóttir fyrir Útlínur liðins tíma eftir Virginiu Woolf sem Una útgáfa gefur út

Í dómnefnd sitja Elísabet Gunnarsdóttir, Guðrún H. Tulinius og Þórður Helgason. Verðlaunin verða veitt í febrúar á næsta ári.

Í umsögn dómnefndar um Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu segir: „Pólski rithöfundurinn Olga Tokarczuk hlaut Man Booker verðlaunin árið 2018 og Bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2018 aðeins 57 ára, sem er lágur aldur miðað við flesta verðlaunaþega þeirrar stofnunar. Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu er að forminu til sakamálasaga, en hún tekur líka á réttindum kvenna og dýra enda fékk hún blendnar viðtökur í Póllandi þegar hún kom út árið 2009. Annað viðfangsefnið er stjörnuspeki sem aðalpersónan, brúarverkfræðingurinn Janina, stundar af miklum móð og þar við bætist að hún er að aðstoða vin sinn að þýða enska skáldið William Blake og frá honum kemur titillinn og upphaf hvers kafla. Þá fer að vandast fyrir þýðanda sögunnar því fyrst margreyna þau Janina og Dyzio að þýða kvæði eftir Blake yfir á pólsku svo er skáldsagan þýdd á ensku og loks kemur Árni Óskarsson og þýðir yfir á íslensku. Þetta má kalla margslungið en afmarkað vandamál, en hinn sérstæði og margbreytilegi stíll bókarinnar, ýmist fyndinn eða drungalegur, er þó það sem öllu skiptir að fanga og það tekst Árna Óskarssyni með prýði. Við þetta má svo bæta að það er tími til kominn að þessi pólska bók hafi verið þýdd á okkar góða mál og gaman væri að fá fleiri slíkar.“

Friðrik Rafnsson
Friðrik Rafnsson

Um Svikin við erfðaskrárnar: Ritgerð í níu hlutum segir: „Hérna tekst Friðrik á við ritgerð Kundera í 9 hlutum frá árinu 1993. Nokkur tími er liðinn frá því, en viðfangsefnið er enn í gildi, samningur lesanda og hlustanda við höfunda bókmennta og tónlistar og kímni, fyndni, grín, gaman og margt fleira. Friðriki tekst einstaklega vel að túlka hugðarefni höfundar í margbreytilegum textum og nálgun. Framandi og óvenjuleg sjónarhorn eru skoðuð og verða ekki lengur svo framandi í meðförum þýðandans.  Skilaboðunum er komið til skila. Textinn fylgir vel efnistökum höfundar og verður einkar áhugaverður og grípur lesandann, sem lítur öðrum augum á letur, uppsetningu og útlit lesefnis en áður og setur tónlist Janácek á og hlustar á þagnirnar.“

Um Norrlands Akvavit segir: „Í þessari skáldsögu kynnast lesendur stílgöldrum sagnameistarans Torgny Lindgren sem leiðir þá inn í lítið þorp í Norður-Svíþjóð þar sem allt sýnist horfa til eyðingar. Hnignun, hrörnun og dauði sitja um samfélagið sem ekki virðist eiga sér viðreisnar von. Samt sem áður kynnumst við fólki sem ekki hefur látið bugast, en heldur fast í trú sína og gömul lífsgildi. Því má ekki gleyma að þrátt fyrir fremur myrkan tón sögunnar kraumar undir niðurbæld kímni sem vissulega léttir andrúmsloft hennar. Þýðing Heimis Pálssonar er stórgóð. Á bragðmiklum texta sínum nær hann að gera nafntoguðum blæbrigðaríkum stíl höfundarins fullkomin skil þannig að efni sögunnar og andblær kemst afar vel til skila með ólíkum persónum og umhverfi.“

Jón Stefán Kristjánsson
Jón Stefán Kristjánsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Um Uppskrift að klikkun segir: „Þessi fyrsta unglingaskáldsaga Dita Zipfel hlaut Bókmenntaverðlaun Hamborgar 2017 og Þýsku unglingabókaverðlaunin árið 2020. Hér tekur höfundur fyrir flest það sem hrjáir og kætir nútímaunglinga í hinum vestræna heimi: Einelti, snjallsímaheiminn, útlit og andlega vanlíðan, hremmingar hinsegin fólks, hörmulega foreldra og ástamál þeirra, ástvinamissi og skilyrðislausa kröfuna um að vera eins og allir hinir. Þetta er samt óvenjuleg unglingasaga því söguhetjan, tæplega þrettán ára stúlka, er hugrökk og hugsar sitt og lætur ekki segja sér hver sé klikkaður og hver ekki, að minnsta kosti ekki að óathuguðu máli. Jóni St. Kristjánssyni er vandi á höndum því Lúsí segir söguna sjálf og þá er hætta á að málfarið verði einhæft og tímabundið. Þessu kemst Jón fimlega frá: Orðavalið og málsniðið er fjölbreytilegt, fyndið og ekki einskorðað við talsmáta unglinga þessi árin. Málfar sögupersónanna er margbreytilegt og hæfir hverri og einni vel. Fyndnin kaffærir ekki textann. Þetta er ein ástæða þess að hér er unglingabók fyrir fólk á öllum aldri.“

Pétur Gunnarsson
Pétur Gunnarsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um Játningarnar segir: „Það er mikils virði að fá sígild verk heimsbókmenntanna þýdd á okkar tungu, ekki síst þegar svo vel hefur til tekist í meðförum Péturs Gunnarssonar sem raun ber vitni. Í Játningum sínum gengur Rousseau á hólm við sjálfan sig og tilveru sína og dregur ekkert undan eins og hann raunar lofar lesendum sínum. Í þessu augnamiði fer hann yfir mikið svið, síbreytilegt innra líf sitt, þroska sinn og ytra umhverfi fólks á 18. öld. Þýðanda er því mikill vandi á höndum. Pétri bregst í þessari þýðingu ekki bogalistin en nýtir sér til hins ítrasta forðabúr tungumálsins, þetta safn sem aldirnar hafa léð okkur til að vinna úr. Játningarnar eru því sannkallaður yndislestur allra þeirra sem láta sig varða íslenskt mál og möguleika þess til tjáningar.“

Silja Aðalsteinsdóttir
Silja Aðalsteinsdóttir mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Um Aðgát og örlyndi segir: „Sá heimur strangrar stéttaskiptingar og karlaveldis sem Jane Austen lýsir í skáldsögu sinni Aðgát og örlyndi frá 1811 virðist fátt eiga sameiginlegt með nútímanum. Unglingsstúlkur nú til dags kæmu ankannalega fyrir sjónir í stássstofum breska lágaðalsins á þessum tíma. Þær kæmu sér líklega út úr húsi sem væri afleitt því keppikefli þessara stúlkna var að tryggja sér örugga framtíð með því að giftast og verða frambærilegar, vel stæðar húsfrúr. Silju Aðalsteinsdóttur tekst á frumlegan og skapandi hátt að flytja málfar og kurteisisvenjur fyrirfólksins á tímum Jane Austen inn í nútímann og á íslenskt mál. Hún lætur hvorki titlatog né fastmótaðar reglur samræðunnar bera textann ofurliði. Hún kemur ekki síður skýrt til skila fjasi um dægurmál og hugaræsingi út af ástar- og fjármálum. Málfarið er oft fært í átt til nútímans þótt hvergi sé gefið eftir í nákvæmni og þannig kemst tímalaus efniviður þessarar vinsælu skáldsögu yfir tvö hundruð ára haf tímans.“

Soffía Auður Birgisdóttir
Soffía Auður Birgisdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um Útlínur liðins tíma segir: „Margir þekkja verk Viginia Woolf, sem áður hafa verið þýdd og hún notið mikilla vinsælda hér. Bókin heitir á frummálinu A Sketch of the Past, rituð á árunum 1939-40, skömmu fyrir ótímabært andlát Woolf, en er ekki gefin út fyrr en 1976. Þýðingin er einstaklega vel unnin og rennur með hugsunum höfundar. Soffíu tekst hér að skapa stemningu þar sem höfundurinn setur niður hugsanir sínar um eigið líf, á milli þess sem hún ritar ævisögu myndlistarmannsins Rogers Fry og veltir um leið fyrir sér hvernig hægt sé að lýsa persónu; hver er tilvistin og hvert er tilvistarleysið? Hægt er að lifa sig beint inn í líðan Virginia, verða vitni að breytingum í lífi hennar í orðum sem falla að efninu og sýnir næmi þýðandans fyrir viðfangsefninu. Soffía hefur að auki unnið mikið rannsóknarstarf með því að færa allar persónur frásagnarinnar nær okkur með upplýsingum um þær.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert