Útlendingafrumvarp af dagskrá þingsins fyrir jól

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra verður tekið af dagskrá þingsins fyrir jól og verður því ekki afgreitt fyrr en á nýju ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pírötum, en frumvarpið verður einnig tekið aftur fyrir í allsherjar- og menntamálanefnd eftir áramót sem liður í þinglokasamningum Pírata fyrir þingslit.

„Píratar fagna þessum áfangasigri í baráttu sinni gegn mannfjandsamlegu frumvarpi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem lagt er fram til höfuðs eins jaðarsettasta hóps fólks í íslensku samfélagi, fólks á flótta,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Friðsælar stundir til að endurskoða afstöðuna

„Eftir stendur að fulltrúar meirihlutans standa áfram kyrfilega í vegi fyrir því að óháð álitsgerð sé fengin um lögmæti frumvarpsins, með tilliti til þess hvort frumvarpið samræmist stjórnarskrá og öðrum alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum íslenska ríkisins,“ segir þar jafnframt.

Einnig er tekið fram að það sé einlæg von Pírata að friðsælar stundir á jólahátíðinni geri stjórnarliðum kleift að endurskoða afstöðu sína gagnvart ólýðræðislegum og ógagnsæjum vinnubrögðum í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert