Styrkurinn kominn til vegna bágborinnar umfjöllunar Rúv

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í fjárlaganefnd Alþingis, segir að 100 milljón króna styrkur til fjöl­miðla á lands­byggðinni sem fram­leiða eigið efni fyr­ir sjón­varps­stöð hafi meðal annars verið samþykktur vegna bágborinnar landsbyggðarumfjöllunar Ríkisútvarpsins.

Þá segir hann að Stefán Vagn Stefánsson hafi setið hjá í afgreiðslu málsins í nefndinni. 

Vilhjálmur segir nefndarálitið sem birtist í gær vera áréttingu á því sem var þegar ákveðið en þar segir:

Í ljósi umræðu í fjölmiðlum beinir meirihlutinn því til ráðherra að endurskoða þær reglur sem gilda um rekstrarstuðning við einkarekna fjölmiðla á landsbyggðinni þannig að aukið tillit verði tekið til þeirra sem framleiða efni fyrir sjónvarp.“

Því hefur ekki verið ákveðið að draga styrkinn til baka heldur mun það koma í hlut Lilju Dagg­ar Al­freðsdótt­ur, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, að út­færa aukið til­lit til fjöl­miðla á lands­byggðinni sem fram­leiða efni fyr­ir sjón­varp.

Spurður hvort að nefndarálitið sem birtist í gærkvöldi hafi verið tilraun nefndarinnar til að viðurkenna misstök neitar Vilhjálmur því. 

„Málið er það að þetta er alveg nokkuð skýrt í nefndaráliti eftir aðra umræðu, sem er búið að liggja fyrir í næstum því viku. Það er búið að ræða fjárlögin í fimm daga á þinginu. Þetta er búið að liggja fyrir allan tímann. Svo vorum við að birta nefndarálitið í gær, við afgreiddum það í gærmorgun út, og þá byrjaði þessi umræða svo við bættum þessari setningu við,“ segir hann og vísar þar til tilvísunarinnar hér fyrir ofan. 

Segir Stefán Vagn hafa setið hjá

Vilhjálmur segir að meirihluti fjárlaganefndar hafi verið meðvitaður um tengsl Stefáns Vagns Stefánssonar, þingmanns Framsóknarflokksins og nefndarmanns, við N4 en mágkona hans er framkvæmdastjóri miðilsins. 

„Það var alveg vitað og hann tók heldur ekki þátt í þessu. Enda er ekki verið að styrkja N4. Það er stjórnsýsluferli sem fer í gegnum ráðuneytið. Svo á eftir að koma í ljós hvaða reglur verða settar og hvernig ráðuneytið útdeilir þessu. Það eru vissulega fleiri en N4 sem vantar þennan pening og vilja fá þetta.“

Hann nefnir að verið sé að leggja til að framlengja fjölmiðlastyrki meðan tekin er ákvörðun um stöðu Rúv á auglýsingamarkaði. 

„Við vildum ekkert endilega hækka þá styrki heldur frekar setja í afmarkaðan styrk svo það yrði meira dagskrárgerðarefni á landsbyggðinni, um það snerist málið.“

Þannig að Stefán Vagn sat hjá í afgreiðslu málsins?

„Já, innan meirihlutans þá tók hann ekki þátt í þessari ákvörðun,“ segir Vilhjálmur og fullyrðir að aldrei hafi staðið til að styrkja einn miðil. 

Þess má geta að Stefán Vagn hefur ekki svarað símtölum mbl.is þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. 

Umfjöllun Rúv ekki nægilega góð

„Við vildum leggja áherslu á að þetta [styrkurinn] færi í landsbyggðarefni,“ segir Vilhjálmur og staðfestir að styrkurinn sé kominn til meðal annars vegna þess að meirihlutinn telur að umfjöllun Rúv á landbyggðinni sé ekki nægilega góð.

Hann segir að Stöð 2 hafi staðið sig mun betur í landsbyggðarumfjöllun og nefnir til dæmis þáttinn Um land allt.

„Svo hafa Víkurfréttir verið dugleg á þessu svæði sem ég bý á,“ segir hann en Vilhjálmur er þingmaður í Suðurkjördæmi. 

Ekki ætlunin að styrkja einn

Vilhjálmur segir að meirihluti nefndarinnar, sem sam­an­stend­ur af þing­mönn­um Vinstri grænna, Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks, hafi rætt stöðu Ríkisútvarpsins.

„Við vorum að pæla hvort við gætum eitthvað hreyft við því og reyna að gera tilraun til þess að lækka framlögin. Ein leið til þess að ná því fram var að hækka framlög almennt til einkareknu fjölmiðlanna. En svo gekk þetta með Rúv ekki alveg upp, því miður, en þetta sat eftir.“

Vilhjálmur ítrekar að ætlunin sé ekki að styrkja einungis einn fjölmiðil, en auk N4 framleiðir Víkurfréttir sjónvarpsefni. 

„Ef við hefðum ætlað að styrkja einhvern einn ákveðinn, þá hefðum við sett þetta á kennitölu,“ segir hann og bendir á að slíkt sé gert í fjárlagafrumvarpinu vegna ýmissa stofnanna og samtaka. 

„Að sjálfsögðu erum við ekki að fara að láta einhvern fjölmiðil fá styrk beint af þessu, en vissulega sendi einn fjölmiðill styrkbeiðni upp á sömu upphæð. En það stóð aldrei til að hann fengi styrkbeiðni afgreidda af okkur.“

Vilhjálmur ítrekar að það sé menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra að úthluta styrknum. 

„Móti því að Ríkisútvarpið fái belti og axlabönd“

Nú hafa þessar 100 milljónir greinilega verið til í ríkissjóði, af hverju var þeim ekki úthlutað strax í upphafi?

„Af því að það kom umræða um það að Rúv fengi ekki alla hækkunina sína. Ég er á móti því að Ríkisútvarpið fái belti og axlabönd, verðlagshækkanir og áætlaða fjölgun útvarpsgreiðenda og allt þetta. Það kemur breytingartillaga á milli fyrstu og annarrar umræðu er varðar leiðréttingu á þessu,“ segir Vilhjálmur og bætir við að allur meirihlutinn hafi verið sammála um að láta þá hækkun ekki ganga eftir. 

„Þá kom þessi umræða um að setja aukinn styrk í einkareknu fjölmiðlanna, og þá sérstaklega úti á landsbyggðinni.“

Hann segir að lokum að margir fjölmiðlar séu í rekstrarvanda og munu því gera tilkall til þessara fjármuna. 

„Ef við ætluðum að ganga að kröfum N4 þá hefði þetta þurft að vera miklu hærri tala heldur en 100 milljónir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert