„Þetta eru svakaleg vonbrigði“

Frá upphafi aðalmeðferðar í Héraðsdómi Austurlands í febrúar. Landsréttur hefur …
Frá upphafi aðalmeðferðar í Héraðsdómi Austurlands í febrúar. Landsréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

„Þetta eru svakaleg vonbrigði,“ segir Þórður Már Jóns­son, verj­andi sak­born­ings­ins Árn­mars Jó­hann­es­ar Guðmunds­son­ar í skotárás­ar­mál­inu frá því í fyrra­sum­ar á Eg­ils­stöðum, í samtali við mbl.is. Hann telur líklegt að dóminum verði áfrýjað.

Landsréttur staðfesti í dag átta ára dóm yfir Árnmari og hækkaði miskabætur sem hann skal greiða sonum fyrrverandi sambýliskonu sinnar upp í eina og hálfa milljón hvor, en þeir voru í húsinu sem Árnmar hleypti af skotum. 

„Það liggur fyrir að hann er dæmdur út frá því að það sé trúverðugt það sem lögreglumaðurinn segir, að hann [Árnmar] hafi beinlínis miðað á hann,“ segir Þórður með fyrirvara um lestur á dómi Landsréttar, en blaðamaður náði tali á honum strax eftir dómsuppsöguna. 

Ótrúlegt að framburðurinn sé talinn trúverðugur

Þórður telur að Árn­mar og lög­regl­an hafi skotið af byss­um sín­um á ná­kvæm­lega sömu sek­únd­unni og að Árn­mar hafi skotið þrem­ur skot­um meðan lög­reglumaður­inn hafi skotið ell­efu skot­um á fjór­um sek­únd­um.

Þórður segir það vera ótrúlegt að framburður lögreglumannsins sé talinn vera trúverðugur. Hann segir að lögreglumaðurinn hafi verið uppvís að ósannindum er varðar röð atvika. 

Þórður segir það því vera skrýtið að þetta atvik sé talið trúvænlegt, „þrátt fyrir öll hin atriðin“.

„Það er eiginlega fjarstæðukennt að þetta geti hafa verið með þeim hætti sem hann [lögreglumaðurinn] heldur fram. Mér finnst þetta vera alveg hroðalegur dómur.“

Ekki farið eftir reglunum

Munu þið áfrýja dóminum?

„Mér finnst ekki líkur á öðru en að það verði reynt,“ segir Þórður og bætir við að hann eigi eftir að ræða við skjólstæðing sinn. 

„Hann auðvitað verður alveg sjokkeraður yfir þessu. Mér finnst eitthvað ekki verið að fara eftir reglunum um það að menn skuli njóta vafans. Það eru atvik sem eru alveg klárlega og augljóslega vafaatriði. Það er alveg miklu meira en skynsamlegur vafi en einhvernvegin þá er þetta túlkað svona. Þetta eru vonbrigði, gífurleg,“ segir Þórður að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert