Icelandair aflýsir öllum flugferðum til morguns

Búast má við seinkunum í fyrramálið, að sögn Ásdísar.
Búast má við seinkunum í fyrramálið, að sögn Ásdísar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búið er að aflýsa öllu flugi hjá Icelandair í kvöld vegna veðurs. Ekki verður því flogið fyrr en á morgun, en þó má búast við einhverjum seinkunum í fyrramálið, að sögn Ásdísar Ýrar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair.

Um er að ræða ellefu ferðir til Norður-Ameríku, flug til London Gatwick og flug til Kaupmannahafnar.

„Við erum að vinna í því að koma fólki á önnur flug og farþegar munu fá nýja ferðaáætlun senda,“ segir Ásdís í samtali við mbl.is.

Þá mun Icelandair greiða fyrir hótel fyrir erlenda farþega og tengifarþega.

Eldingu sló niður

Eldingu sló niður þegar vél Icelandair var að lenda frá Stokkhólmi seinnipartinn í dag. Ásdís segir slík tilvik nokkuð algeng og bætir við að engin hætta hafi verið á ferðum.

„Þegar svona gerist fer ákveðið verklag í gang í viðhaldi en við reiknum með að vélin verði komin aftur í áætlunarflug í fyrramálið.“

Farþegar biðu í allt að fjóra tíma

Öllum flugferðum til Evrópu var seinkað í morgun vegna veðursins og aðstæðna á Keflavíkurflugvelli. Ekki kom þó til aflýsinga í morgun og komust allar vélarnar á sinn áfangastað, en þó urðu talsverðar tafir.

Ásdís segir fyrstu brottfarir í morgun hafa gengið vel, en snjókoma hafi síðan aukist snögglega. Í einhverjum tilfellum þurftu farþegar að bíða um borð í vélum í um tvær til fjórar klukkustundir.

„Við svona aðstæður er öryggi alltaf númer eitt, tvö og þrjú og þar af leiðandi er þjónusta um borð takmörkuð á meðan vélin er á jörðu niðri.“

Þegar um ræðir bið úti í vél þá bjóðum við vatn og safa samkvæmt verklagi, en ekki er boðið upp á heita drykki. Ef seinkun á flugi er lengri en ein klukkustund er farþegum boðið upp á orkustykki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert