Sakar sjálfstæðismenn um leikrit

Einar Þorsteinsson, starfandi borgarstjóri Reykjavíkur.
Einar Þorsteinsson, starfandi borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Óttar

Einar Þorsteinsson, starfandi borgarstjóri Reykjavíkur, sakaði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að setja leikrit á svið og ætla meirihlutanum annarlegan ásetning í varðandi umræðubann sem var samþykkt í síðustu viku varðandi málefni Ljósleiðarans, sem er dótturfélag OR, í borgarstjórn. 

„Mér þykir leitt að Sjálfstæðisflokkurinn sé að setja upp þetta leikrit hér í borgarstjórn. Það er ómálefnalegt og ekki í þeim anda sem við lögðum upp með þetta ferli,“ sagði Einar. 

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vísaði því á bug að flokkurinn væri að setja á svið leikrit. „Hér erum við að gæta hagsmuna borgarbúa, eins og okkur ber að gera.“

Verður tekið til umræðu á nýju ári

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar og oddviti Viðreisnar, sagði við upphaf fundarins, að umræðunni hefði verið hafnað þar sem um trúnaðarmál væri að ræða sem væri til meðferðar í þverpólitískum rýnihóp borgarráðs. Málið myndi þó koma til meðferðar á vettvangi borgarráðs og til umræðu í borgarstjórn á nýju ári. 

Kjartan Magnússon.
Kjartan Magnússon.

„Ég held að þetta hafi aldrei gerst áður að borgarfulltrúum sé meinað beinlínis að taka mál á dagskrá, og hvað þá eins stórt mál eins og hér er til umfjöllunar,“ sagði Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, þegar hann tók til máls, en Kjartan vildi ræða almennt um stöðu Ljósleiðarans og Orkuveitunnar við borgarstjóra. 

Laumuspil og leyndarhyggja

Kjartan sagði að þetta bann væri skýrt brot á 27. grein sveitarstjórnarlaga og bætti við að meirihlutinn hefði með þessu gerst sekur um valdníðslu og einræðistilburði. Laumuspil og leyndarhyggja hefði auk þess einkennt vinnubrögð meirihlutans í málinu. Kjartan sagði vel hægt að eiga pólitíska umræðu um málið án þess að ræða trúnaðarupplýsingar.

„Tilgangurinn með umræðunni hér í borgarstjórn er fyrst og fremst sá að borgarfulltrúar geri sér grein fyrir því hvað er um ræða áður en þeir hleypa þessu máli lengra,“ sagði hann.

Fjallað var um umræðubannið á fundi borgarstjórnar í dag.
Fjallað var um umræðubannið á fundi borgarstjórnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Tilgangurinn með þessu umræðubanni borgarstjórnarmeirihlutans er greinilega sá að koma í veg fyrir umræðu sem meirihlutanum finnst óþægileg. Það er um stórfellda lántöku Ljósleiðarans og áhrif hennar á fjárhagsáætlanir Reykjavíkurborgar og Orkuveitunnar. Þá er ljóst að borgarstjóri og borgarfulltrúar meirihlutans vilja firra sig ábyrgð á málinu eftir því sem kostur er, en varpa því þess í stað á stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sem tók í síðustu viku ákvörðun um að heimila stjórn Ljósleiðarans að ganga frá samningum við Sýn,“ sagði Kjartan og bætti við að málið hefði verið knúið í gegn á óeðlilegum hraða í stjórn OR, þar sem hann á sæti.

Þöggun af pólitískum meiði

Marta Guðjónsdóttir, sagði á fundinum, að umræðubannið væri fordæmalaust í sögu Reykjavíkur.

„Það er grunur minn að þessi þöggun sé af pólitískum meiði. Sé svo er það grafalvarlegt mál að meirihlutinn misbeiti valdi sínu í því skyni að hefta málfrelsi kjörinna fulltrúa í borgarstjórn. Og því hef ég skotið málinu til sveitarstjórnarráðuneytisins enda tel ég, í þessu tilfelli, að forsætisnefnd hafi gerst sek um að brjóta sveitarstjórnarlög.“

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Aðsend

Marta sagði að borgarfulltrúar yrðu að geta sinnt sínu eftirlitshlutverki og gæta hagsmuna skattgreiðenda í Reykjavík. Hér væri um að ræða mál sem varðaði hagsmuni borgarbúa og það væri í raun óskiljanlegt að borgarfulltrúar fengju ekki aðgang að gögnum í tengslum við það.

„Hvað hefur borgarstjóri, eða meirihluti borgarstjórnar að fela í þessu máli? Hvað varð eiginlega um það hlutverk borgarfulltrúa að gæta hagsmuna skattgreiðenda í borginni,“ spurði Marta og fór fram á heiðarlegt svar hvers vegna komið væri í veg fyrir umræðu um málið á vettvangi borgarstjórnar. 

Furðuleg orðræða

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins og starfandi borgarstjóri, sagði að það kæmi honum mjög á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn skyldi beita sér með þessum hætti í málinu. Hann sagði enn fremur að orðræða Kjartans og Mörtu hefði verið furðuleg. Hún bæri þess vitni að nú ætti að beita gamalli pólitískri taktík „að gera allt tortryggilegt og sjá spillingu í hverju horni, og hika ekki við það að nota stór og ljót orð og gera fólki upp annarlegan ásetning. Og mér þykir það mjög leitt.“

Hann sagði að bæði Kjartan og Marta ættu að vita að borgarráð hefði sett sérstakan þverpólitískan rýnihóp á laggirnar þar sem allir flokkar í borgarstjórn gætu farið sameiginlega yfir málið, fá enn fremur jafnan aðgang að trúnaðarupplýsinga og geta spurt spurninga. 

„Þessi rýnihópur er ennþá að störfum og hefur ekki skilað af sér og þess vegna vekur það undran að málið skuli vera fært hingað inn í borgarstjórn af því að málið er þannig vaxið að það eru mjög viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sem um er að ræða,“ sagði Einar. 

„Mér finnst það vonbrigði að það sé ekki hægt að vinna að flóknum úrlausarnefnum þar sem við erum að ræða um viðkvæmar trúnaðarupplýsingar með borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, af því að við höfum sannarlega gefið færi á því.“

Vinnan eigi að fara fram í rýnihópnum

Marta gerði athugasemdir við það að borgarfulltrúar hefðu ekki fengið að sjá samningsdrögin á milli Sýnar og Ljósleiðarans, eins og kallað hefði verið eftir. 

Einar varað þá við því að farið væri í efnislega umræðu um þetta mál á fundi borgarstjórnar þar sem um trúnaðargögn væri að ræða. „Við erum einmitt hér að standa vörð um hagsmuni borgarbúa með því að gæta trúnaðar um viðskiptahagsmuni fyrirtækja í eigu borgarinnar.“ Vinnan færi fram í fyrrgreindum rýnihópi og þar ætti hún að vera. 

„Þetta er stórt mál og varðar mikla hagsmuni borgarbúa og þess vegna var þessi rýnihópur settur upp til þess að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gætu setið við borðið og haft aðgengi að upplýsingum á sama tíma og við í meirihlutanum höfum aðgengi að upplýsingunum. Við höfum sama aðgang og upplýsingum og þið. Og þar á vinnan að vera og það er leitt ef Sjálfstæðisflokkurinn treystir sér ekki í það,“ sagði Einar. 

Marta, sem á sæti í rýnihópnum, ítrekaði þá að hún hefði ekki fengið að sjá umræddan viðskiptasamning þrátt fyrir að hafa óskað eftir því. „Það er tortryggilegt að borgarfulltrúar fái ekki að sjá samninginn,“ sagði hún. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert