„Þá verður örtröð á bráða- og geðdeildum“

Garðar Sölvi Helgason greindist með geðklofa haustið 1970 og hefur …
Garðar Sölvi Helgason greindist með geðklofa haustið 1970 og hefur verið fastagestur Vinjar frá árinu 1999. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fastagestur Vinjar segir borgarfulltrúa ekki gera sér almennilega grein fyrir hvað felst í þeirri ákvörðun að loka þessu mikilvæga úrræði. Hann og fleiri sem þangað sækja þjónustu hafi átt í erfiðleikum með svefn eftir að greint var frá lokuninni og hefur hann sömuleiðis þurft að auka lyfjaskammtinn sinn. 

Vin er dagsetur fyrir fólk með geðraskanir sem Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu hefur rekið í nær 29 ár. Borgin tók yfir reksturinn fyrir ári síðan en fyrir skömmu var tekin ákvörðun um að loka úrræðinu í hagræðingarskyni.

Kostnaðurinn endar á ríkinu

„Það er enginn sparnaður af þessu. Kostnaðurinn endar á ríkinu. Ef þeir loka Vin þá verður örtröð á bráða- og geðdeildum, það er bara þannig,“ segir Garðar Sölvi Helgason í samtali við mbl.is. Hann var greindur með geðklofa haustið 1970, þá 16 ára gamall, og hefur nú verið fastagestur hjá Vin í rúma tvo áratugi.

„Það tók mig tvö ár að komast þangað inn af því að geðlæknirinn minn benti mér á Vin en hann varaði sig ekki á því að það þurfti einhver að koma með mér í fyrsta skiptið. Ég margoft labbaði fram hjá og þorði ekki inn. Hann skildi það ekki blessaður kallinn.“ 

Einar Þorsteinsson, starfandi borgarstjóri, tók í dag við undirskriftarlista með tæplega fjögur þúsund nöfnum, þar sem þess er krafist að borgin endurskoði ákvörðun sína um að loka Vin. Þá afhenti Garðar Sölvi borgarstjóranum einnig bréf sem hann skrifaði út af fyrirhuguðu lokuninni.

Garðar afhenti Einari Þorsteinssyni bréf í dag vegna lokunarinnar.
Garðar afhenti Einari Þorsteinssyni bréf í dag vegna lokunarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Myndi þá einangrast í bókunum mínum

Fréttirnar um lokun Vinjar hafa valdið Garðari miklu uppnámi sem hefur litið á Vin sem sitt annað heimili. Áður fyrr þurfti hann einungis að taka lyf við geðklofanum tvisvar á viku en nú þarf hann að taka þau einu sinni til tvisvar á dag.

„Ég held að borgarfulltrúar hafi ekki almennilega áttað sig á því hvað þeir voru að gera ef þeim dettur í hug að loka Vin. Það er mín skoðun. Þegar að ég heyrði þessar fréttir fyrst að þá – og það eru margir fleiri í Vin sem eru þannig – hættum við að geta sofið eðlilega.“

Hvað gerist ef að þessu úrræði verður lokað?

„Þá bara er ég einn heima. Ég treysti mér ekki á Vitatorgið, það er ekki staður fyrir mig. Ég yrði þá bara einn heima. Myndi þá einangrast í bókunum mínum,“ segir Garðar.

„Margir sem eru eins og ég eru bara einir. Það er nú akkúrat það sem ég vil breyta. Ég er ekki að tala um að lækka bæturnar hjá þeim sem að búa einir, ég er að tala um að hækka hina. Kerfið eins og það er núna ýtir undir félagslega einangrun og einmanaleika.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert