Bubbi snýr aftur á Litla-Hraun á aðfangadag

Bubbi Morthens verður með sína árlegu jólatónleika á Litla-Hrauni.
Bubbi Morthens verður með sína árlegu jólatónleika á Litla-Hrauni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bubbi Morthens mun snúa aftur í fangelsið Litla-Hraun á aðfangadag til að halda sína árlegu jólatónleika fyrir vistmenn. Þrjú ár eru liðin frá því að tónlistarmaðurinn heimsótti fangana yfir hátíðarnar síðast en þessi viðburður hefur fallið niður í tvígang vegna samkomutakmarkana.

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir ánægjulegt að hægt sé að bjóða Bubba og fleiri skemmtikrafta velkomna á ný í heimsókn enda séu hátíðarnar gjarnan erfiðasti tími ársins fyrir þá sem dvelja í fangelsum.

„Þetta er sá tími sem fólk eyðir gjarnan með ástvinum sínum og áramótin eru uppgjörstímabil þar sem menn minnast kannski þeirra sem eru látnir og svo framvegis. Þetta er okkar skjólstæðingum mjög erfiður tími og við leggjum mikið upp úr því að reyna að halda hátíðleg jól.

Það aðstoða okkur ýmsir góðir aðilar, bæði ýmis félagasamtök eins og Samhjálp og Hjálpræðisherinn sem gefa föngum gjafir. Svo er helgihald í öllum fangelsum landsins,“ segir Páll.

Heimsóknir flesta daga yfir hátíðarnar

Rýmri heimsóknartími er yfir hátíðarnar þar sem vinum og vandamönnum býðst að heimsækja vistmenn alla daga fyrir utan aðfangadag og gamlársdag. 

Þá hefur Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, aðstoðað vistmenn í aðdraganda jólanna við ýmislegt sem koma þarf í verk fyrir utan veggja fangelsanna, til að mynda koma jólagjöfum til skila.

Vistmenn sjá sjálfir um eldamennskuna og fá þeir tvöfalt fæðisfé yfir hátíðarnar til að matreiða dýrindis jólamat. „Þeir elda nánast allir sjálfir og það fer töluverður tími í að undirbúa matinn.“

Á milli hátíða býðst föngum svo að sækja hugleiðslunámskeið í nokkrum fangelsum og boðið verður upp á jólabíó á sjónvarpsrásum fangelsanna. 

Að sögn Páls hefur ástandið í fangelsum landsins verið nokkuð gott síðustu vikur. Minna hefur verið um neyslu sem á það til að aukast í aðdraganda jólanna samhliða þeirri vanlíðan sem getur fylgt þessum tíma árs.

„Við höfum blessunarlega verið nokkuð laus við það þetta árið.“ 

Uppátækið reynt aftur

Á síðasta ári brugðu fangar á Litla-Hrauni á það ráð að stilla skóm sínum fyrir utan fangaklefana í von um að jólasveinninn myndi koma í heimsókn og skilja þar eftir litla gjöf. Það gekk þó misvel og fengu einhverjir kartöflu í skóinn.

„Það hefur eitthvað verið um það,“ segir Páll og hlær við þegar blaðamaður spyr hvort fangar hafi verið að fá í skóinn. Hann kvaðst þó ekki klár á því hvort einhver hefði fengið kartöflu eins og í fyrra. 

„Okkur þótti þetta ansi sniðugt og það var eitthvað framhald á því hjá einhverjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert