Ríkið greiðir Erlu 32 milljónir í bætur

Erla Bolladóttir.
Erla Bolladóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkomulag hefur náðst milli íslenska ríkisins og Erlu Bolladóttur vegna gæsluvarðhalds sem Erla sætti fyrir meinta aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar. Erla var sýknuð af þeim ákærum í Hæstarétti 1980 en hún mátti sæta frelsissviptingu í tæpa átta mánuði vegna málsins.

Samkvæmt samkomulaginu greiðir íslenska ríkið Erlu Bolladóttur miskabætur fyrir gæsluvarðhaldið á sama grundvelli og sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, sem síðar voru sýknaðir, voru dæmdar í Landsrétti. Nemur fjárhæð miskabótanna um 32 milljónum króna en fjárhæðin tekur mið af þeim bótum sem Landsréttur ákvarðaði fyrir gæsluvarðhald í fyrrnefndum dómum. Alls sat Erla í gæsluvarðhaldi í 232 daga í tengslum við meinta aðild sína að hvarfi Geirfinns, að því er forsætisráðuneytið greinir frá. 

Samkomulagið við Erlu Bolladóttur tekur eingöngu til gæsluvarðhalds vegna rannsóknar á hvarfi Geirfinns Einarssonar. Dómur vegna rangra sakargifta stendur óhaggaður, samanber niðurstöðu Endurupptökudóms frá 14. september sl.

Biður Erlu afsökunar

Í yfirlýsingu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem er hluti samkomulagsins er Erla Bolladóttir beðin sérstaklega afsökunar á þeirri meðferð sem hún mátti þola og afleiðingum hennar en hún var á tíma gæsluvarðhaldsins ung kona með kornabarn, að því er ráðuneytið greinir frá. 

Yfirlýsing forsætisráðherra er svohljóðandi:

„Hvörf þeirra Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar hafa varpað skugga á íslenskt þjóðlíf um áratuga skeið og sett mark sitt á ævi fjölmargra einstaklinga. Óvissuástandi sem sneri að sakborningum í þessum málum var að mestu eytt með sýknudómi Hæstaréttar yfir þeim sem taldir voru bera ábyrgð á mannshvörfunum, dómum Landsréttar um sanngjarnar bætur þeim til handa svo og lögum nr. 128/2019, sem tryggðu bætur til aðstandenda hinna sýknuðu sem voru látnir. Þá hafa þeir sem sýknaðir voru og aðstandendur verið beðnir afsökunar á því hvernig staðið var að þeirra málum og að þeir hafi verið ranglega sakfelldir og sætt langri fangelsisvist.

En mál þetta lýtur að fleiri sakborningum í málunum, sem sættu rannsókn og gæsluvarðhaldi, sem á sér vart hliðstæðu í íslenskri réttarsögu. Erla Bolladóttir, ung kona með kornabarn, sætti þannig gæsluvarðhaldi vegna meintrar hlutdeildar í hvarfi Geirfinns Einarssonar frá byrjun maímánaðar 1976 og fram að jólum sama ár. Aðstæður sem gæsluföngum voru búnar á þeim tíma voru sérlega erfiðar, eins og dómar hafa staðfest. Erla var sýknuð af ákæru fyrir aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar með dómi Hæstaréttar 1980 og féll því ekki undir sýknudóm Hæstaréttar á árinu 2018, og því ekki undir þær ráðstafanir sem ríkið ákvað að grípa til í kjölfar hans. Er staða Erlu því sérstök meðal sakborninganna í málinu. Lengd frelsissviptingar hennar meðan á rannsókn Geirfinnsmálsins stóð og aðstæður sem henni og barni hennar voru búnar á þeim tíma eru fordæmalausar. Í því skyni að leiða til lykta þessi mál, að því er fyrrum sakborninga varðar, þykir eðlilegt og sanngjarnt að biðja Erlu sérstaklega afsökunar á þeirri meðferð sem hún mátti þola og afleiðingum hennar. Þá þykir og sanngjarnt, þó svo að langt sé um liðið, að Erla fái samhliða greiddar bætur vegna frelsissviptingar sinnar í gæsluvarðhaldi til samræmis við bætur sem Landsréttur ákvarðaði sakborningum sem sýknaðir voru af sökum varðandi mannshvörfin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert