Þagnarskyldan hamli þolendum

Áformað er að slaka á þagnarskyldu heilbrigðisstarfsmanna í heimilisofbeldismálum.
Áformað er að slaka á þagnarskyldu heilbrigðisstarfsmanna í heimilisofbeldismálum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þagnarskylda heilbrigðisstarfsmanna getur hamlað framgangi heimilisofbeldismála hjá lögreglu og komið í veg fyrir að þolandi fái viðeigandi aðstoð.

Þetta er mat heilbrigðisráðuneytisins, sem hyggst leggja fram frumvarp til að bæta stöðu þolenda heimilisofbeldis.

Heilbrigðisstarfsmönnum er gert samkvæmt gildandi lögum að gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem þeir komast að í starfi sínu. Aðeins má víkja frá þagnarskyldu vegna brýnnar nauðsynjar, á grundvelli samþykkis sjúklings eða samkvæmt ákvæðum annarra laga.

Skilyrðið um brýna nauðsyn getur talist uppfyllt í heimilisofbeldismálum en það hefur reynst vera heldur matskennt og þolendum þar með ekki endilega til hagsbóta.

Samræmt verklag vegna ítrekaðra koma

Frumvarpinu er ætlað að heimila heilbrigðisstarfsmönnum á skýran hátt að upplýsa lögreglu um heimilisofbeldismál sem rata inn á borð þeirra. Væri þeim gert kleift að miðla nauðsynlegum upplýsingum til lögreglu vegna sérstaklega hættulegra einstaklinga.

Ef um ítrekaðar komur vegna heimilisofbeldis á heilbrigðisstofnun er að ræða, til dæmis ef ófrísk kona kemur á heilbrigðisstofnun í kjölfar heimilisofbeldis eða ef þolandi greinir frá því að hafa verið tekinn kyrkingartaki í tengslum við heimilisofbeldi, myndi samræmt verklag heilbrigðisstofnana vegna móttöku þolenda heimilisofbeldis virkjast og lögregla þá upplýst um málið, að því er fram kemur í áformum ráðherra sem nú liggja í Samráðsgátt.

mbl.is