Tímamót sem Erla er búin að þrá í þrjá áratugi

Guðmundar- og Geirfinnsmálinu er nú loksins lokið af hálfu Erlu …
Guðmundar- og Geirfinnsmálinu er nú loksins lokið af hálfu Erlu Bolladóttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég fagna þessum tímamótum sem ég er búin að þrá í áratugi. Þó að þau séu ekki nákvæmlega eins og ég vildi eru þetta samt sem áður málalok,“ segir Erla Bolladóttir í samtali við mbl.is.

Sam­komu­lag hef­ur náðst milli ís­lenska rík­is­ins og Erlu Bolla­dótt­ur vegna gæslu­v­arðhalds sem Erla sætti fyr­ir meinta aðild að hvarfi Geirfinns Ein­ars­son­ar. Erla var sýknuð af þeim ákær­um í Hæsta­rétti 1980 en hún mátti sæta frels­is­svipt­ingu í tæpa átta mánuði vegna máls­ins.

„Ég er svolítið dofin gagnvart þessu eins og er. Á þessum degi 22. desember þá eru nákvæmlega liðin 46 ár síðan ég var látin laus úr gæsluvarðhaldi.“

„Þetta er svolítið táknrænt að það sé í raun verið að láta mig lausa úr þessu máli núna.“

Spurð hvort að málinu sé lokið að hennar hálfu segir Erlu svo vera.

„Ég sé fyrir endann á minni ævi og þetta þýðir það að ég er alla vega búin að ljúka þessu með sátt við ríkisstjórnina og minni virkni í þessu máli er formlega lokið. Nú sný ég mér bara að því að eiga góð jól með fjölskyldu minni í Svíþjóð og að átta mig á breyttri stöðu minni.“

Þakkar forsætisráðherra

„Þetta var svo endasleppt að þetta skyldi ljúka svona hjá endurupptökudómstól og ég átti ofsalega erfitt með tilhugsunina um það að ríkið segði skilið málið við þar. Þetta er allt saman erfitt, þungt og sárt.

Mér fannst rétt að minnsta kosti að vekja athygli á því að það væri hægt að klára þetta með því að bæta mér þó að minnsta kosti það sem ólögleg var í þessu gæsluvarðhaldi.“

„Það er Katrín [Jakobsdóttir] og hennar fólk sem má segja að hafi veg og vanda að þessari ákvörðun sem ég held að sé mjög góð.“

„Það eru þarna alla vega öfl sem átta sig á mannúðarsjónarmiðum og að það var ástæða til þess að ljúka þessu einhvern veginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert