Leit á mig sem misheppnaðan mann

Árni Jón Árnason fór í vegferð lífs síns með Viktoríu …
Árni Jón Árnason fór í vegferð lífs síns með Viktoríu Hermannsdóttur sem skrásetti allt í heimildarmyndinni Velkominn Árni. mbl.is/Ásdís

Einlæg vinátta og væntumþykja ríkir á milli Árna Jóns Árnasonar og Viktoríu Hermannsdóttur sem blaðamaður hitti á heimili Árna einn snjóþungan eftirmiðdag í vikunni. Árni hefur búið í íbúð sinni í Kópavogi í fimm áratugi og þar líður honum vel innan um bækur, englastyttur, málverk eftir sjálfan sig og ljósmyndir af fjölskyldumeðlimum, gömlum sem nýjum. Kynni dagskrárgerðarkonunnar Viktoríu og Árna, verkamanns á eftirlaunum, hófust með einu símtali en úr varð að Viktoría gerði heimildarmynd, ásamt Allan Sigurðssyni, um einstaka sögu Árna sem fyrir tilviljun hóf leit að föður sínum á áttræðisaldri.

Faðirinn var hermaður

Árni var að vonum hissa yfir þessu sérkennilega símtali.

„Ég hafði aldrei reynt að hafa uppi á föður mínum, enda var móðir mín reið honum á sínum tíma. Hún var þarna 47 ára en hann rúmlega tvítugur og við höldum að hún hafi gert sér einhverjar vonir um samband,“ segir Árni, en hann átti þrjú eldri systkini sem nú eru látin.

„Þegar ég hringdi í Árna var hann löngu hættur að pæla í hver væri faðir hans,“ segir Viktoría.

„Ég held að bræður mínir hafi ekki vitað neitt en mögulega vissi systir mín eitthvað, en það var vitað að faðir minn hefði verið hermaður. Mamma hafði sagt mér það en ég fékk aldrei að vita nafnið,“ segir Árni sem segist hafa farið að spyrja móður sína um föður sinn þegar hann var að nálgast unglingsárin.

„Hún brást illa við og varð hin reiðasta,“ segir hann en móðir hans lést þegar hann var á fermingaraldri og tók leyndarmálið með sér í gröfina.

Eins og endurfæðing

Líf Árna hefur gjörbreyst eftir ævintýrið að leita að upprunanum.

„Mér finnst ég nýr maður. Ég er miklu opnari og það er eins og ég hafi endurfæðst. Ég fór að skrifa og á meira en tíu handrit að ljóðabókum og hugleiðingum. Ég er meira að segja búinn að skrifa uppkast að ævisögunni, en það spratt allt upp af þessu ævintýri,“ segir Árni sem nú þegar hefur gefið út eina ljóðabók sem nefnist Seyðingur.

„Ég fékk sjálfstraust. Ég leit alltaf á mig sem misheppnaðan mann,“ segir Árni, en heimildarmyndin Velkominn Árni verður á Rúv á jóladag. 

Ítarlegt viðtal er við Árna og Viktoríu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert