Tækifærin fleiri fyrir þá með íslenskan talsmann

Heiðrún Hauksdóttir við hlið herflutningavélarinnar sem lagði af stað frá …
Heiðrún Hauksdóttir við hlið herflutningavélarinnar sem lagði af stað frá Keflavíkurflugvelli í síðustu viku með níu tonn af varningi til Úkraínu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þörfin fyrir alls kyns hjálpargögn í Úkraínu er mikil, sama hvort sem um er að ræða nýja ullarleista eða sárabindi, að sögn Heiðrúnar Hauksdóttur, sem hefur verið talsmaður verkefnisins Sendum hlýju. 

Heiðrún, sem starfar nú sem leiðsögumaður, hefur varið bróðurpart af frítíma sínum síðustu mánuði við að aðstoða við móttöku úkraínskra flóttamanna, senda hjálpargögn til Úkraínu og útvega Úkraínufólki sem hingað er komið vinnu við hæfi, húsgögn, rúmföt og annað í þeim dúr.

Í síðustu viku voru níu tonn af prjónaflíkum og varningi send áleiðis til Úkraínu m.a. fyrir tilstilli verkefnisins Sendum hlýju. Þúsundir Íslendinga tóku þátt í að prjóna flíkurnar sem munu koma sér vel fyrir bæði almenning og varnarsveitir úkraínska hersins. 

Hjálpargögnin sem lögðu af stað í síðustu viku eru nú …
Hjálpargögnin sem lögðu af stað í síðustu viku eru nú komin til Úkraínu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

28 kassar sendir út á fimmta degi stríðs

Þetta er þriðja sendingin til Úkraínu sem Heiðrún hefur komið að en sú fyrsta fór úr landi aðeins fjórum dögum eftir að stríðið hófst. Með aðstoð fyrirtækja sem voru tilbúin að láta af hendi varning á borð við brunagel og sárabindi, og flugfélags sem lagði út fyrir kostnaðinum vegna flutningsins, tókst Heiðrúnu þá að senda 28 kassa af sérhæfðum hjálpargögnum til Póllands, þaðan sem leiðin lá til Úkraínu. 

Hjálpargögnin í sendingunni voru meðal annars brunagel og sjúkragögn sem hægt er að nota til að stöðva blæðingu og búa um brunasár á vígvellinum. 

„Ég var með lista yfir níu atriði frá Póllandi. Félagi minn sem var með mér í stjórn European young conservatives hann sendi mér þennan lista ef ég vildi hjálpa til. Hann hefur verið að skipuleggja og var núna í fyrra dag að fara með fimm flutningabíla frá Gdansk og til suður Úkraínu með hjálpargögn.[...] Þarna vildu þau alls ekki fá fatnað vegna þess að hann var bara að teppa flutningaleiðir yfir landamærin en núna vilja þau fatnað. Þetta er ekkert alltaf sami listinn.“

Eins og áður sagði fékk Heiðrún 28 kassa sem fóru með flugvél til Póllands í lok febrúar en nokkrum dögum síðar fékk hún tvö vörubretti til viðbótar af hjálpargögnum frá fyrirtækjum sem hún hafði sett sig í samband við.

Sá varningur endaði síðar með sendingu til Úkraínu sem Golfsamband Íslands og Félag Úkraínumanna á Íslandi stóð fyrir.

Hefur samband við fólk sem hún þekkir ekki neitt

Þegar blaðamaður furðar sig á því hvernig manneskja sem ekki var í forsvari fyrir stór samtök eða góðgerðarfélag hafi tekist að safna álíka magni af hjálpargögnum á svo stuttum tíma og koma þeim svo áleiðis til Úkraínu svarar Heiðrún: „Ég geri þetta bara með því að hafa samband við fólk sem að þekkir mig ekki neitt. Sumir segja ekki neitt en aðrir segja já.“

„En auðvitað skiptir máli að maður hafi trúverðugleika,“ bætir hún við en í því samhengi er vert að nefna að Heiðrún starfaði áður sem sjálfboðaliði á vegum Rauða krossins og hefur nokkuð víðtæka reynslu á þessu sviði.

„Ég tók þátt í ýmsu alþjóðlegustarfi þegar ég var rúmlega tvítug, meðal annars í stjórn Evrópusamtaka. Svo hef ég verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og hef búið í fleiri löndum og unnið. Svo ég hef auðvitað verið að byggja upp reynslu og þekkingu síðustu ár sem kemur til góða,“ segir Heiðrún.

„Það eru margir sem hafa kynnst mér í gegnum tíðina, ég hef verið að vinna á stöðum þar sem maður hefur kynnst mörgu fólki. Sumir þekktu mig en svo var líka fólk sem þekkti mig ekki neitt sem að samt brást mjög vel við þegar ég hafði samband. Svo voru enn aðrir sem vildu fá einhverja pappíra og þá auðvitað útvegar maður pappíra frá eins og úkraínska konsúlnum í Gdansk og borgarstjóranum í Gdansk þar sem ég er nafngreind sem samstarfsaðili þessara hjálparsamtaka í Póllandi.“

Útvegaði sundföt fyrir flóttafólkið

Fljótlega eftir að stríðið hófst og fólk frá Úkraínu tók að koma til landsins frétti Heiðrún af framtaki sjálfboðaliða sem að útveguðu gjaldfrjálsum aðgangi í sundlaugarnar í Reykjavík fyrir flóttafólk. Hún ákvað sjálf að láta slag standa og útvega þeim sundföt.

„Ég vissi strax að það yrði líklegt að það kæmu þrjú til fimm þúsund manns. Ég fékk stóra kassa frá sumum aðilum og heilt vörubretti frá þeim sem voru rausnarlegastir. Strax þegar Rauðará var byrjuð sem ný flóttamannaaðstaða og Hótel Saga var að opna þá var ég að fara inn á þessa staði að afhenda fólki nýjan sundfatnað og kynna fyrir þeim möguleikana sem okkar dásamlegu sundlaugar og jarðhiti eru.“

Mikilvægt að Úkraínufólkið taki virkan þátt í samfélaginu

Síðan þá hefur Heiðrún ekki látið deigan síga en hún hefur hjálpað við að útvega Úkraínufólki hér á landi húsgögn, barnavögnum og annað í þeim dúr, auk þess sem hún hefur aðstoðað þau við ýmsa pappírsvinnu og að koma þeim í vinnu við hæfi.

„Þar er mjög mikilvægt að Úkraínufólkið sem og aðrir innflytjendur taki virkan þátt í okkar samfélagi og séu ekki eingöngu í afmörkuðum deildum þar sem að eingöngu erlent fólk starfar og það kynnist kannski ekki Íslendingum. Það er mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að taka vel á móti fólkinu og tengja þau inn í okkar samfélag,“ segir Heiðrún

„Það er auðveldara að finna leiguhúsnæði og það er auðveldara að fá tækifæri til að fá atvinnuviðtal ef þú hefur íslenskan talsmann.“ 

3.500 pör af lopasokkum 

Fyrr á árinu heyrði Heiðrún af framtaki vaskra kvenna sem hafa verið að safna saman og prjóna flíkur sem þær vildu senda út til Úkraínu. Heiðrún setti sig í samband við konu að nafni Birgit Raschhofer, sem hefur verið í forsvari fyrir prjónaátakið, til að sameina krafta þeirra.

„Við vildum hjálpa og ég hef nýtt mína reynslu í að virkja fólk. Ég vissi að hún var með prjónahóp og hún var byrjuð strax í ágúst að safna handprjónuðum flíkum og hekluðum til að senda einstaklingum úti. Ullarleistarnir eru sérstaklega samkvæmt ósk frá úkraínskum yfirvöldum fyrir herinn,“ segir Heiðrún.

Leiddi það til þess að flíkur sem þúsundir Íslendinga tóku þátt í að prjóna voru með um borð í kanadískri herflutningavél sem flutti níu tonna varning áleiðis til Úkraínu í síðustu viku. Er varningurinn ætlaður bæði varnarsveitum úkraínska hersins og almenningi í landinu.

Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra ásamt Birgir Raschhofer.
Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra ásamt Birgir Raschhofer. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í þessu samhengi þá erum við að senda hlýju til Úkraínu. Hluti af því eru ullarleistar sem íslenska þjóðin hefur tekið þátt í að prjóna. Við erum með 3.500 pör sem eru handprjónuð af Íslendingum út um allt, ég á tæplega 10 af þeim, en þetta eru nokkur tonn af ýmsum fatnaði.“

Auk prjónavarningsins voru sjúkragögn, skjólfatnaður og skór með í för. Utanríkisráðuneytið lagði út fyrir vetrarbúnaði fyrir tæpar 50 milljónir króna en raunvirði varningsins er um 150 milljónir.

Sendingin er nú lent í Úkraínu og eru úkraínsku hermennirnir þegar búnir að máta lopasokkana eins og sjá má á myndskeiði sem utanríkisráðuneytið fékk sent á dögunum.

Þar senda hermennirnir þakkir til Íslands og segja að klæðnaður­inn komi að góðum not­um á víg­stöðvun­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert