„Miklu fleiri óvanir ökumenn á ferðinni“

Björgunarsveitarfólk hefur unnið hörðum höndum síðustu daga.
Björgunarsveitarfólk hefur unnið hörðum höndum síðustu daga. Ljósmynd/Landsbjörg

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir í samtali við mbl.is að ef lokunarpóstar eru ekki mannaðir séu meiri líkur á að fólk keyri fram hjá þeim, þá sérstaklega óvanir erlendir ferðamenn. Hann segir að vetrarferðamennskan hafi aukist mikið síðustu ár.

Á jóladag greindi mbl.is frá máli þar sem bíl­stjóri rútu virti ekki lok­an­ir á Suður­landi með þeim af­leiðing­um að rútan festist í tvígang. 

Fram­kvæmda­stjóri Hóp­bíla sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að bílstjórinn hafi ekki séð merk­ing­ar um lok­an­ir og metið aðstæður þannig að best væri að halda áfram.

Duga þessir lokunarpóstar?

„Eins og alltaf, þegar eitthvað svona kemur upp á þá verðum við að skoða hvernig við stöndum að hlutunum og hvort að það sé hægt að gera það eitthvað öðruvísi,“ segir G. Pétur og bætir við að ekki sé hægt að manna alla lokunarpósta. 

„Þetta fer allt eftir aðstæðum. Við vitum að fólk fer miklu frekar fram hjá póstum ef þeir eru ekki mannaðir, en það hefur verið lítið um það að menn hafi verið að hunsa tilmæli björgunarsveitarmanna hingað til.“

Samningur við björgunarsveitirnar

Vegagerðin er með samning við björgunarsveitirnar um að manna lokunarpósta ef þess þarf.

„Þeir fara á sínum bílum og eru náttúrulega mjög áberandi og eru orðnir þrautþjálfaðir í þessu.“

G. Pétur segir að meðal annars sé metið hversu mikil umferð sé og hvernig aðstæður séu er verið sé að ákveða hvort eigi að manna lokunarpóstana. 

Hann segir að undanfarið hafi Vegagerðin fjölgað lokunarhliðum víðs vegar um landið. „Til þess að geta lokað eins skynsamlega og mögulegt er.“ 

Tregir að breyta plönum

Hann segir að vert sé að hafa í huga að samsetning umferðarinnar hefur breyst mikið síðustu ár. 

„Stóra breytingin á undanförnum árum er vetrarferðamennska erlendra ferðamanna. Það eru því miklu fleiri á ferðinni – miklu fleiri óvanir ökumenn á ferðinni. Þess vegna höfum við brugðist við með því að loka og reyna að forðast að lenda í aðstæðum þar sem tugir eða hundruð bíla festast eða stöðvast, því það tekur svo gríðarlega langan tíma að vinna út úr því.“

G. Pétur segir að hóteleigendur og aðrir séu duglegir að koma upplýsingum til sinna viðskiptavina en að um stóran hóp sé að ræða.

„Það er svolítið erfitt að ná til hans. Þá eru ferðamenn búnir að gera sín plön og virðast mjög tregir – sem er kannski alveg skiljanlegt – að breyta plönunum,“ segir hann og bætir við að þess vegna séu mannaðir lokunarpóstar þar sem ferðamenn eru margir. 

„Það skiptir máli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina