„Þetta var illa merkt og vont veður“

Guðjón segir bílstjórann ekki hafa séð merkingar um lokanir.
Guðjón segir bílstjórann ekki hafa séð merkingar um lokanir. Ljósmynd/Landsbjörg

Framkvæmdastjóri Hópbíla segir bílstjóra og leiðsögumann í rútunni sem sat föst í tvígang á Suðurlandi á jóladag, eftir að bílstjórinn ók framhjá lokunarpóstum, ekki hafa séð merkingar um lokanir og metið aðstæður þannig að best væri að halda áfram.

„Þau fóru þarna vissulega framhjá, þetta var illa merkt og vont veður og annað. Þau voru bara að reyna að koma fólkinu í gistingu. Hópurinn er bara í góðu yfirlæti og það er stefnt að því að koma þeim heim í dag eða á morgun, eftir því hvernig færðin verður,“ segir Guðjón Ármann Guðjónsson, framkvæmdastjóri Hópbíla, í samtali við mbl.is, eftir að hafa fengið frekari upplýsingar um málið.

Fyrr í morgun hafði hann ekki nægar upplýsingar til að svara því af hverju bílstjórinn virti lokanir að vettugi, en nú hefur hann fengið skýringar frá bílstjóra rútunnar og leiðsögumanni sem var um borð.

„Fullt af bílum“ fóru framhjá

Um þrjátíu erlendir ferðamenn voru í rútunni sem var ekið framhjá lokunarpóstum á þjóðvegi 1 á Suðurlandi á jóladag og festist fyrst við Pétursey í Mýrdal. Jón Hermannsson, sem stýrði björgunarsveitaraðgerðum á svæðinu, sagði í samtali við mbl.is að bílstjórinn hefði haldið áfram í leyfisleysi. Rútan sat svo aftur föst í brekku við Hótel Dyrhólaey og hamlaði með því björgunarsveitarstarfi, því ekki var hægt að koma fólki í gistingu á hótelinu fyrir vikið.

Guðjón segir bílstjórann hafa verið í ákveðinni klemmu, eins og stundum gerist. Ekki hafi verið um viljaverk að ræða. Enginn hafi slasast og björgunarsveitafólk hafi komist framhjá rútunni. „Menn reyna sitt besta til að komast og hópurinn kemst á hótel og er þar í góðu yfirlæti,“ segir Guðjón.

„Það var enginn sem stóð þarna og bannaði þeim að fara framhjá. Það var fullt af bílum sem fóru þarna framhjá, sem sáu þetta greinilega ekki heldur.“

Farið yfir alla verkferla

Spurður hvort bílstjórinn hafi ekki fengið þau tilmæli að halda ekki áfram, eftir að tekist hafði að losa rútuna í fyrra skiptið segir Guðjón:

„Ég veit ekki hver leiðbeindi honum eða hver sagði hvað, ég var ekki á staðnum. Þetta er það sem kom frá þeim, annars vegar bílstjóra og hins vegar ferðaleiðsögumanni.“

Guðjón segir að farið verði yfir alla verkferla þegar bílstjóri rútunnar kemur í bæinn.

„Það virkjast ákveðnir „protocolar“ og það verður farið yfir það ítarlega þegar við sjáum betur nákvæmlega hvernig þetta atvikaðist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert