„Þurfum við ef til vill á varnarmálaráðuneyti að halda?“

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Það segir sig sjálft þegar öll bandalagsríki okkar hafa endurmótað varnaráætlanir sínar í tengslum innrás Rússlands í Úkraínu þá er það mjög sérstakt að það endurmat skuli ekki eiga sér stað hér hjá íslenskum stjórnvöldum,“ segir Bald­ur Þór­halls­son, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði, í samtali við mbl.is. Hann vakti athygli á þessu í Facebook-færslu í dag þar sem hann spurði hversu lengi íslensk stjórnvöld ætli að sofa á verðinum. 

Fyrr í mánuðinum var birt skýrsla for­sæt­is­ráðherra um mat þjóðarör­ygg­is­ráðs á ástandi og horf­um í þjóðarör­ygg­is­mál­um. Skýrsl­an var gerð af stýri­hópi þjóðarör­ygg­is­ráðs eft­ir inn­rás Rússa í Úkraínu. 

Baldur segir að augljóst sé að ekki sé verið að vinna með það sem fram kemur í skýrslunni í tillögu forsætisráðherra um breytingu á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem hefur verið lögð fyrir Alþingi

„Það koma mikilvæg atriði fram í skýrslunni, eins og til dæmis að hernaðarlegt mikilvægi Íslands hafi aukist og að það þurfi að grípa til aðgerða – það þarf að fara fram ákveðin stefnumótun varðandi öryggis- og varnarmál – en á því er ekki tekið í tillögu forætisráðherra.“

Hann segir að því sé ekki samræmi á öryggismatinu sem kemur fram í skýrslunni og breytingu á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. 

„Í öðru lagi þá má segja að það vanti allar frekari útfærslur í skýrslunni á hvernig eigi að framkvæma þessa hluti.“

Aldrei meiri hætta á að átök breiðist út

Baldur nefnir að í þingsályktunartillögunni sé ekki gert ráð fyrir því að átökin í Úkraínu breiðist út. 

„Það hefur aldrei verið meiri hætta á því að átök breiðist út í Evrópu frá lokum síðari heimstyrjaldar,“ segir hann og ítrekar að hann sé þó ekki að segja að það muni endilega gerast, heldur að það hafi aldrei verið meiri líkur á því frá fimmta áratugnum. 

„En á það er ekki minnst einu orði í þingsályktunartillögu forsætisráðherra um breytingu á þjóðaröryggisstefnu þjóðarinnar. Meðan að allar aðrar nágrannaþjóðir okkar eru að taka á þessum málum. Ég held við getum ekki bara tekið á þessu með þögninni.“

Baldur segir að stefna Vinstri grænna sé því ofan á þar sem er lagt áherslu á hlutleysi. 

Þau trúa ekki á fæl­ing­ar­mátt varna. Þau trúa á hlutleysi og að hér á landi eigi ekki að vera varnarviðbúnaður. Það er gott og gilt en þau eru að minnsta kosti ekki að halda á lofti fæl­ing­ar­mætt­in­um sem virkaði mjög vel á tím­um kalda stríðsins.“

„Þetta reddast“

Af hverju telur þú að stjórnvöld hafi ekki mótað skýra stefnu í varnarmálum?

„Það eru nokkrir þættir sem geta komið til greina og ég held að þeir blandist saman. Eitt er þessi sofandaháttur í varnar- og öryggismálum sem ég held að jafnvel tengist þessum hugsunarhætti „þetta reddast“. En það er líka þessi viðkvæmni að ræða öryggis- og varnarmál í tengslum við núverandi ríkisstjórnarsamstarf.“

Í því samhengi nefnir Baldur að svo virðist sem vægi Vinstri grænna er kemur að varnarmálum í samstarfinu sé meira en talið var við fyrstu sýn.

Æfing Atlantshafsbandalagsins í Keflavík í júlí.
Æfing Atlantshafsbandalagsins í Keflavík í júlí. mbl.is/Árni Sæberg

Hann segir að grundvallarstefnan sé í gildi, þ.e.a.s. aðild að Atlantshafsbandalaginu, samstarf við Bandaríkin, og þá sé mikil uppbygging á öryggissvæðinu í Keflavík. 

Baldur nefnir að forsætisráðherra sé formaður þjóðaröryggisráðs. „Það litar nokkuð augljóslega að það sé ekki tekið á þessum hernaðarþætti varnarmála.“

Þarf að framkvæma ítarlegt mat

Spurður hvað sé mikilvægasta aðgerðin í að bregðast við auknu hernaðarlegu mikilvægi Íslands eftir að árásin í Úkraínu hófst segir Baldur að það þurfi að fara fram ítarlegt mat á því hvernig vörnum Íslands sé best háttað.

„Vilja Íslendingar og íslensk stjórnvöld leggja mest áherslu á loftvarnir, eða varnir í hafi, eða varnir á landi? Hvað er það nákvæmlega sem við viljum gera og teljum best fyrir okkur þegar kemur að varnarmálum?“

Baldur segir að það mat verði ekki endilega það sama og mat bandalagsþjóða okkar. 

„Mat okkar gæti falist í því að við þyrftum á litlu varnarliði að halda eða loftrýmisgæslu allt árið. Þurfum við ef til vill á varnarmálaráðuneyti að halda?“

Baldur spyr að lokum hvernig Íslendingar vilji tryggja stöðugleika á Norðurslóðum. „Að mínu mati verða stjórnvöld að móta stefnu og taka upp samtal við almenning.“

mbl.is

Bloggað um fréttina