Sorphirðugjald mun hækka um liðlega 20% hjá íbúum Reykjavíkur á nýju ári en hækkunin var samþykkt í borgarstjórn hinn 1. nóvember.
Borgarstjórinn Dagur B. Eggertsson lagði þá fram fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar í borgarstjórninni.
Áætlunin felur meðal annars í sér hækkun á sorphirðugjaldi um 20% en gjaldið er einn liður fasteignaskattsins ásamt lóðarleigu og gjalds vegna endurvinnslustóðva.
Sorphirðugjald miðast við fjölda ruslatunna, stærð þeirra og tíðni losana. Gráa tunnan sem inniheldur blandaðan úrgang er losuð á 14 daga fresti. Árgjaldið fyrir slíka 240L tunnu fer nú yfir 40 þúsund krónur en var 34.200 krónur á árinu sem er að líða. Ársgjald fyrir 120L tunnu verður um það bil 25 þúsund.
Í höfuðborginni verður heimilissorp nú flokkað í fjórar mismunandi tunnur. Fyrir utan blandaðan úrgang er blá tunna fyrir endurvinnanlegan pappír og pappa, græn tunna fyrir endurvinnanlegt plast og brún tunna fyrir lífrænan úrgang. Bláar, grænar og brúnar tunnur eru aðeins losaðar á þriggja vikna fresti. Ársgjald fyrir þessar tunnur (240L) verður á bilinu 12 - 16 þúsund.